96 smit innanlands

Sýnataka við Suðurlandsbraut.
Sýnataka við Suðurlandsbraut. mbl.is/Odd

96 kórónuveirusmit hafa greinst í þeim sýnum sem tekin voru innanlands í gær. Fjögur smit til viðbótar greindust á landamærunum.

Frá þessu greindi Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hún sagði enn unnið að greiningu fleiri sýna vegna mikils fjölda þeirra.

Í uppfærðum tölum á covid.is fyrr í morgun kom fram að 82 smit hefðu greinst innanlands. Þar af hefðu 23 verið í sóttkví við greiningu og 59 utan sóttkvíar. 

Af þeim voru 55 fullbólusettir og 25 óbólusettir. 

Hlutfall jákvæðra sýna lækkar 

Hlutfall jákvæðra sýna við einkennasýnatöku lækkar á milli daga, rétt eins og í fyrradag. Á sunnudag var hlutfall jákvæðra sýna 3,89% en í gær var það 2,52%. 

Alls eru nú 695 í einangrun og 1.976 í sóttkví. Áfram eru tveir á sjúkrahúsi með veiruna. Af þeim sem eru nú í einangrun eru langflestir 18-29 ára eða alls 320. Næstflestir eru á aldrinum 30 til 39 eða 119. 

Í gær greindust 77 við einkennasýnatöku og fimm við sóttkvíar- og handahófsskimanir. 3.057 sýni voru tekin við einkennasýnatöku. 353 sýni voru tekin á landamærunum, 884 sýni voru tekin við sóttkvíar- og handahófsskimanir og 157 sýni voru tekin við skimanir á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. 

Í fyrradag greindist 71 smit innanlands og voru 32 í sóttkví við greiningu. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is