Ekki útilokað að herða þurfi aðgerðir

Frá Landspítala. Ef sjúkrahúsinnlögnum vegna Covid-19 fer að fjölga þarf …
Frá Landspítala. Ef sjúkrahúsinnlögnum vegna Covid-19 fer að fjölga þarf líklega að endurskoða aðgerðir, að sögn Ölmu. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ef innlögnum á sjúkrahús vegna Covid-19 fer að fjölga getur verið að herða þurfi sóttvarnaaðgerðir innanlands. Sem stendur er markmið reglnanna, til skemmri tíma, að fækka smitum í samfélaginu og ná yfirsýn. 

Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í morgun. Hún sagði ástæðuna fyrir því að aðgerðirnar væru ekki mjög harðar þrátt fyrir fjölda smita þá að bólusetningarhlutfallið væri hátt. 

„Við erum núna að kaupa svolítinn tíma og átta okkur á því hvað Delta er skætt,“ sagði Alma. 

Hún sagði ekki útilokað að herða þyrfti aðgerðir ef fólk færi að veikjast mikið: „Síðan þurfum við auðvitað bara að sjá hvernig álagið verður á heilbrigðiskerfið.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði að afturhvarf til hertra reglna um sóttkví, sem varða bólusetta einstaklinga, myndi vonandi hjálpa til við að fækka smitum utan sóttkvíar.

mbl.is