Gerðu ráð fyrir því að bólusetningin myndi duga

Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi. Þangað …
Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi. Þangað fór unga fólkið sem smitaðist. Ljósmynd/Thinkstock

Unga fólkið sem fór í tíu daga skemmtiferð til eyjarinnar Krítar á Grikklandi fyrr í þessum mánuði, með þeim afleiðingum að um 40 smituðust af kórónuveirunni, bjóst sannarlega ekki við að smitast af veirunni. Flestir innan hópsins voru fullbólusettir gegn Covid-19 og þegar ferðin hófst var Grikkland skilgreint sem grænt land á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Ferðinni sem unga fólkið fór í, sem hefur verið vísað til sem útskriftarferðar Flensborgarskólans í fjölmiðlum en einn úr föruneytinu segir að hafi ekki verið eiginleg útskriftarferð, hafði verið frestað þrisvar og hópurinn var því glaður að komast loks út.

„Það voru allir bólusettir svo við vorum eiginlega bara búin að gleyma þessu,“ segir ung kona sem fór í ferðina með um 80 öðrum. Hún smitaðist af Covid-19 og vill ekki láta nafns síns getið. „Við gerðum ráð fyrir því að bólusetningin myndi verja okkur.“

Frá Krít. Unga fólkið var orðið mjög spennt að komast …
Frá Krít. Unga fólkið var orðið mjög spennt að komast til eyjunnar enda hafði ferðinni verið frestað nokkrum sinnum.

Fóru í skimun til öryggis

Ferðin hófst 13. júlí síðastliðinn og lauk 23. júlí. Þegar unga fólkið kom til Krítar fóru þau í skimun fyrir kórónuveirunni og reyndust ekki smituð. Við heimkomu ákváðu þau að fara í skimun, þrátt fyrir að þau væru bólusett.

„Við ákváðum bara að gera það til öryggis. Okkur datt ekki í hug að við værum smituð. Ein stelpan komst að því að hún væri smituð og lét alla vita,“ segir unga konan. Því telja þau að þau hafi smitast á Grikklandi, líklega á skemmtanalífinu þar sem margt var um manninn.

„Við fórum út þegar Grikkland var skilgreint sem grænt land og svo breyttist það bara í miðri ferð. Við gátum ekkert farið heim þá.“

Ömurlegt að senda fólk í sóttkví

Aðspurð segir konan að það hafi verið ákveðið áfall að svo margir hafi greinst smitaðir. „Það bjóst enginn við að vera smitaður. Svo sendir maður auðvitað alla í sóttkví heima hjá sér, sem er ömurlegt.“

Um 150 til 160 voru í flugvélinni sem hópurinn var í á leiðinni heim frá Krít. Sem stendur hafa einungis einstaklingar úr hópnum greinst smitaðir, ekki farþegar sem eru ótengdir honum enda eiga þeir flestir eftir að fara í skimun fyrir veirunni, samkvæmt upplýsingum frá rakningarteymi almannavarna. Allir í vélinni voru sendir í sóttkví eða einangrun eftir atvikum, nema þeir sem áttu fyrri sögu af Covid-19.

mbl.is