Launafólki hjá gjaldþrota fyrirtækjum fækkaði um 54%

Bækistöðvar Skattsins við Laugaveg.
Bækistöðvar Skattsins við Laugaveg.

Af 375 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2021 voru 60 með virkni á fyrra ári, 54% færri en á sama tímabili 2020 þegar þau voru 131. 

Þar af voru 23 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, fimm í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, átta í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 24 í öðrum atvinnugreinum. 

Fram kemur í tilkynningu frá Hagstofu Íslands að fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2021 höfðu um 494 launamenn að jafnaði árið áður sem er um 54% fækkun frá sama tímabili 2020 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru 1.085. Mælt í fjölda launafólks á síðasta ári voru áhrif gjaldþrota á öðrum ársfjórðungi 2021 minni en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum atvinnugreinaflokkum. 

Samtals voru 146 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins tekin til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum. Af þeim voru 22 með virkni á síðasta ári, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 55% fækkun frá júní 2020.

mbl.is