Menningarnótt í lausu lofti

Flugeldasýning á Menningarnótt.
Flugeldasýning á Menningarnótt. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar fundar nú um það hvort hægt verði að halda Menningarnótt í ár. Hátíðin, sem á að fara fram 21. ágúst, hangir nú í lausu lofti vegna heimsfaraldursins að sögn Guðmundar Birgis Halldórssonar, viðburðastjóra Menningarnætur.

„Við erum að skoða málið mjög alvarlega og velta því fyrir okkur hvernig þetta verður. Það er neyðarstjórn borgarinnar sem tekur þessar ákvarðanir í samráði við sóttvarnayfirvöld,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Með breyttu sniði eða frestað

„Það er bara verið að funda um þetta og við gerum ráð fyrir því að gefa frá okkur yfirlýsingu um þetta strax í næstu viku.“ 

Inntur eftir því segist hann „ekki nógu bjartsýnn“ á að hægt verði að halda hátíðina með hefðbundnu sniði að þessu sinni. Tíminn verði að leiða það í ljós.

„Það er stjórnin sem ákveður það. Miðað við hvernig þetta lítur út þá finnst mér líklegast að hátíðin verði haldin með breyttu sniði eða að henni verði einfaldlega frestað.“

„Við viljum klárlega vera ábyrg“

Að vanda stóð til að bjóða borgarbúum upp á fjölbreytt úrval skemmtilegra viðburða í miðborginni á Menningarnótt. Þá úthlutuðu Reykjavíkurborg og Landsbankinn 22 styrkjum til einstaklinga og hópa sem vildu vera með atriði á hátíðinni í ár. Enn er óljóst hvað verður um þau atriði sem hlutu styrki, verði ekki af hátíðinni að sögn Guðmundar.

„Annars vegar reynum við að sjá hvort það sé einhver grundvöllur fyrir því að koma með atriðin seinna og ef ekki þá verður útlagður kostnaður sennilega endurgreiddur. Þar sem núverandi sóttvarnaaðgerðir eru í gildi til 13. ágúst ákváðum við að gefa okkur fram í næstu viku til að fara yfir þetta,“ segir hann. 

„Við vonum bara að staðan verði betri í faraldrinum. Við viljum klárlega vera ábyrg og sjá til hvernig ástandið verður.“

mbl.is