Þrír á sjúkrahúsi með Covid-19

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

Á hádegi í dag lágu þrír sjúklingar inni á legudeildum Landspítalans með Covid-19.

705 eru smitaðir og þar með í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 74 börn.

Enginn er „rauður”, sem þýðir að viðkomandi væri með mikil einkenni. 22 eru „gulir”, eða með aukin og svæsnari einkenni. 

Fjórtán starfsmenn eru í einangrun, 30 eru í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 149 starfsmenn, að því er segir í tilkynningu.  

„Ástæða er til að útskýra þá litakóðun sem COVID göngudeildin notar til að skilgreina veikindi og tíðni eftirlits með einstaklingum með COVID smit. Það að einstaklingur sé á grænu þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé einkennalaus heldur getur hann verið með ýmis einkenni en vegna aldurs, fyrra heilsufars, áhættuþátta o.s.frv. getur hann stigast grænn með litla, meðal, eða mikla áhættu á að þróa frekari veikindi. Á sama hátt eru þeir sem stigast gulir einnig með mismikil einkenni og eftirlit þeirra stýrist af áhættumati og líkum á frekari veikindum. Þeir sem eru rauðir eru með mikil einkenni og eru í mestri áhættu að verða alvarlega veikir og þarfnast innlagnar,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi aðferð við að flokka sjúklinga og veita þeim eftirlit við hæfi hefur reynst afar vel á göngudeildinni frá byrjun og er t.d. vegvísir um hvenær skal kalla viðkomandi inn til skoðunar og meðferðar í göngudeild og hversu títt þarf að hringja í hann og meta ástandið. Það gefur því ekki rétta mynd af ástandinu að horfa einungis á fjölda einstaklinga með ákveðna litakóðun heldur eru fleiri breytur sem hjálpa fagfólkinu að skipuleggja eftirlitið og forgangsraða með öryggi sjúklinga að leiðarljósi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert