Þrír skjálftar á Vesturlandi: „Alveg ótrúlegt“

Kort/map.is

Þrír jarðskjálftar urðu á Vesturlandi síðdegis í gær, um 24,9 km norður af Borgarnesi. Mældist sá stærsti 3 að stærð.

Sá skjálfti reið yfir klukkan 16.35 og var á 13,3 km dýpi samkvæmt mælingum Veðurstofunnar. Ekki hafa orðið skjálftar á þessu svæði undanfarna viku.

Ekki er óvanalegt að jarðskjálftar mælist á svæðinu að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

„Við fengum skjálfta þarna fyrir einhverjum vikum líka. Ég myndi kannski ekki segja að skjálftar á þessu svæði væru algengir en þeir koma alveg fyrir. Það voru einhverjir í byrjun júní og svo hafa verið einhverjir lengra aftur í tímann,“ segir hún.

Fleiri stöðvar, fleiri skjálftar

„Það munar svolitlu að nýlega voru settar upp þrjár nýjar skjálftastöðvar á Snæfellsnesinu í kringum Snæfellsjökul. Þær geta hjálpað til að finna skjálfta á þessu svæði. Því fleiri stöðvar sem við erum með því fleiri skjálfta finnum við.“

Svanhildur Björk Svansdóttir fann fyrir skjálftunum en hún er bóndi á bænum Álftártungu, sem er í um 13 kílómetra fjarlægð frá upptökum skjálftans.

„Þetta var alveg ótrúlegt. Ég stóð hérna á gólfinu og fann þrisvar sinnum lítinn titring. Maðurinn var gangandi þegar þetta gerðist og fann ekki neitt en ég fann þetta því ég stóð kyrr. Ég kíkti á hundana til að gá hvort þetta hefðu verið þeir að klóra sér því það verður stundum smá titringur við það en þær lágu bara grafkyrrar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert