Tómar hillur og skortur á sælgæti

Tómar hillur í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli.
Tómar hillur í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Aðsend

Athygli vakti í morgun hve löng röðin var til innritunar í Leifsstöð en hún náði út úr byggingunni. Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia, segir að það hafi ekkert farið úrskeiðis en biðraðir skýrist frekar af fjölda farþega og þeirrar stöðu að sjálfsafgreiðslukassar eru lokaðir. 

Isavia hefur reynt að koma til móts við þessa stöðu með því að opna öryggishliðið fyrr og hvetja fólk til að mæta snemma. 

Vinna að tæknilausn

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair missti enginn af flugi þrátt fyrir langa bið við innritun. Þó að mikið hafi verið að gera snemma var búið að leysa úr öllu klukkan hálfsjö.

Mismunandi takmarkanir eru í gildi á landamærum eftir því hvert förinni er heitið og því er gerð krafa um að flugfélögin fari yfir gögn hjá farþegum við innritun. Hver innritun tekur því töluvert lengri tíma en venjulega.

Ekki er hægt að nota sjálfsinnritun enn sem komið er en að sögn Guðna Sigurðssonar, staðgengils upplýsingafulltrúa Icelandair, er verið að vinna að tæknilausn til að farþegar geti sent inn gögnin sín fyrir fram. Þessi lausn myndi létta á álaginu en hún er þó ekki enn komin í gegn.

Tómar hillur

Sjá má ummerki mannmergðarinnar á Keflavíkurflugvelli víðar en við innritun. Hillur Fríhafnarinnar eru margar hverjar tómar. Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf., segir að von sé á sendingum í þessari viku. 

Eftirspurnin hefur verið mikil en ýmis vandamál í aðfangakeðjunni hafa ekki síður haft áhrif. Helstu vandræðin tengjast erlendu sælgæti. Margar verksmiðjur lokuðu vegna heimsfaraldursins og tíma hefur tekið að ná fullum afköstum á ný, að sögn Þorgerðar.

Þorgerður bendir á að flestir flugvellir í heiminum séu í sambærilegri stöðu og framleiðendur anni ekki eftirspurn. 

„Eins hafa komið upp ýmis vandamál við flutninga, ekki til gámar á réttum stöðum og skipið sem strandaði í Suez-skurðinum hafði keðjuverkandi áhrif,“ segir Þorgerður.

mbl.is