Tveir skjálftar yfir þremur í Bárðarbungu í kvöld

Bárðarbunga er í norðvesturhluta Vatnajökuls.
Bárðarbunga er í norðvesturhluta Vatnajökuls. Kort

Tveir jarðskjálftar yfir þremur á stærð hafa mælst í nálægð við Bárðarbungu nú í kvöld. Þetta staðfestir starfsmaður Veðurstofunnar við mbl.is.

„Fyrsti skjálftinn mælist rétt upp úr klukkan sjö í kvöld og var hann 3,3 að stærð. Í kjölfarið fylgdu nokkrir eftirskjálftar sem voru þó minni.“

Á ellefta tímanum í kvöld mældist annar skjálfti á sömu slóðum. Sá var 3,7 að stærð.

Síðast mældist skjálfti yfir þremur á stærð í lok júní og þar áður í maímánuði.

„Þetta er sjöundi skjálftinn sem mælist yfir þremur á síðastliðnu ári þarna í Bárðarbungu. Sá stærsti var í september í fyrra, 4,8 minnir mig,“ segir starfsmaður Veðurstofunnar.

Er þetta eitthvað að lifna við þarna?

„Nei það þarf ekkert að vera, það koma alltaf skjálftar þarna við og við.“

Stafaði nokkur hætta af skjálftanum?

„Það er erfitt að segja eins og er, en eins og ég segi þá er þetta ekki fyrsti skjálftinn af þessari stærð á svæðinu undanfarin misseri.“

Er um að ræða eins konar „rútínuskjálfta“?

„Já það er kannski hægt að segja það, en maður getur náttúrulega aldrei sagt nákvæmlega til um með náttúruna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert