Bóluefnatöflur stefna hraðbyri á markað

Vonir standa til að bóluefni á duftformi eða sem töflur …
Vonir standa til að bóluefni á duftformi eða sem töflur geti nýst til að koma bóluefnum hraðar til fólks sem býr í fátækum ríkjum heims AFP

Þau bóluefni sem notuð hafa verið hingað til við Covid-19 eru öll á fljótandi formi og þurfa að geymast í kulda. Það gæti breyst fljótlega því bóluefni í formi dufts og taflna eru nú í þróun víða um heim.

Í Suður-Svíþjóð þróa fyrirtækin Iconovo og ISR nú saman bóluefni við Covid-19 á duftformi sem hægt verður að anda að sér í gegnum lítið innöndunartæki. Teymið sem vinnur að þróun þess vonast til þess að duftið geti leikið stórt hlutverk í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn með því að gera fólki kleift að bólusetja sig sjálft heima hjá sér.

„Þetta er auðvelt að nota og ódýrt að framleiða. Þú fjarlægir bara plasthuluna og svo seturðu tækið í munninn og dregur inn andann,“ segir Johan Waborg, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við BBC. Fyrirtækið hefur til þessa framleitt innöndunartæki fyrir fólk með astma.

Bóluefni sænsku fyrirtækjanna hefur aðeins verið prófað á músum hingað til en rannsóknir á virkni þess í mönnum hefjast á næstu tveimur mánuðum. Enn er óljóst hvort það muni veita sams konar vernd og önnur bóluefni sem áður hafa verið samþykkt gegn kórónuveirunni.

Í Ísrael þróar fyrirtækið Oramed Pharmaceuticals bóluefni við Covid-19 á töfluformi. Í mars var tilkynnt að bóluefnið, sem er útfærsla á bóluefni indverska fyrirtækisins Premas Biotech, hafi orðið til þess að mótefni myndaðist í svínum. Áætlað er að klínískar rannsóknir á því hefjist fljótlega.

Oramed hefur hlotið leyfi til að hefja klínískar rannsóknir á bóluefninu á 24 óbólusettum sjálfboðaliðum. Fylgst verður með hvort þeir myndi mótefni í kjölfar þess að fá bóluefnið og hversu mikið magn þeir mynda. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að hefja rannsóknina í næsta mánuði.

Skiptir sköpum fyrir íbúa í fátækum ríkjum

Vonir standa til að bóluefni á duftformi eða sem töflur geti nýst til að koma bóluefnum hraðar til fólks sem býr í fátækum ríkjum.

Bóluefnin sem þegar eru samþykkt gegn kórónuveirunni þarf að geyma við allt að mínus 70 gráður alveg þar til því er sprautað í sjúklinga.

Bóluefnaduftið sem nú er þróað í Svíþjóð á hins vegar að þola allt að 40 gráður. „Það sem skiptir sköpum er að þú gætir dreift duftbóluefninu mjög auðveldlega án þess að þurfa að halda því köldu allan tímann og það væri hægt að gefa það sjúklingum án þess að heilbrigðisstarfsmenn þyrftu að koma að því,“ segir Ola Winquist, stofnandi IRS og prófessor í ónæmisfræðum við Karolinska spítalann.

Hann telur að bóluefnið muni gagnast sérstaklega vel til að hraða bólusetningum í Afríku þar sem hlýtt veðurfar og takmarkað framboð rafmagns eru stórar áskoranir þegar kemur að því að geyma og nota Covid-19-bóluefni áður en þau renna út.

Að sama skapi þarf ekki að geyma bóluefnatöflurnar sem nú eru í þróun í kulda og þær þarfnast ekki aðkomu heilbrigðisstarfsfólks. „Bóluefnið okkar, sem er gefið í gegnum munn, þarf ekki að vera djúpfryst líkt og önnur bóluefni við Covid-19. Það getur verið úrslitaatriði varðandi það hvort land nái sér út úr faraldrinum eða ekki,“ sagði Nadav Kidron, forstjóri Oramed Pharmaceuticals, í samtali við ísraelska fjölmiðla.

Ný lyf við Covid-19 í þróun

Nokkur lyfjafyrirtæki eru með lyf í þróun til meðferðar á Covid-sjúklingum. Pfizer og Merck eru á síðustu stigum prófana og áætlar Pfizer að sitt lyf, sem er í töfluformi og er tekið tvisvar á dag, gæti komið á markað fyrir lok árs. Töflurnar eru ætlaðar þeim sem eru smitaðir af Covid-19 og með mild einkenni. Japanska fyrirtækið Shionogi fetar nú í fótspor Pfizer og Merck. Það hóf nýlega prófanir á mönnum fyrir nýtt lyf á töfluformi við Covid-19. Prófanir munu líklega standa yfir fram á næsta ár. Bóluefni hafa reynst vel gegn Covid-19-sjúkdómnum en ekki vilja allir láta bólusetja sig og þá geta bólusettir einnig smitast af veirunni og fengið einkenni. Þessum nýju lyfjum er því ætlað að bregðast við þörf sem hefur skapast fyrir lyf til að meðhöndla sjúkdóminn. Önnur lyf sem þegar eru gefin við Covid eru aðeins notuð á spítölum og virka einungis í sumum tilfellum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »