Einkennilegar tölur á hitamælum

Veðurfræðingur á vakt gerir ráð fyrir að hraun renni brátt …
Veðurfræðingur á vakt gerir ráð fyrir að hraun renni brátt yfir hitamælinn í Fagradalsfjalli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á heimasíðu Veðurstofu Íslands má nálgast veðurathuganir dagsins. Þar má sjá mesta og minnsta hita sem mælist á landinu á degi hverjum. Einkennilegar tölur má þó sjá þar nú, en hæst hefur hiti mælst 36 stig á Fagradalsfjalli og mínus 39,6 stig á Hálfdán á Vestfjörðum.

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur, segir í samtali við mbl.is að þessar tölur standist ekki.

„Á Hálfdán má gera ráð fyrir því að mælirinn sé bilaður, en hann hefur sýnt sambærilegar tölur undanfarna daga þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hitinn sé annað en í kringum tíu stig,“ segir Birgir.

Varðandi Fagradalsfjall segir hann: „Mælirinn er í lagi á Fagradalsfjalli en staðsetningin er þannig að hraun er farið að renna ansi nálægt mælinum. Hann hefur undanfarna mánuði sýnt einkennilegar mælingar þegar vindáttin blæs frá hrauninu en við gerum bara ráð fyrir því að hraunið sé ansi nálægt því að renna yfir hann.“

Þrátt fyrir hlýtt veður á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga þá var því þó ofaukið að tæplega fjörutíu stiga hiti mældist á Reykjanesi.

mbl.is