Óskaði eftir ábendingum um „banvæn“ tjaldsvæði

Hulda Dröfn Jónasdóttir ásamt dóttur sinni Eldeyju Nótt.
Hulda Dröfn Jónasdóttir ásamt dóttur sinni Eldeyju Nótt. Aðsend mynd

Hulda Dröfn Jónasdóttir sló heldur betur í gegn með færslu sem hún birti á facebookhópnum „Landið mitt Ísland“ í gær þar sem hún óskar eftir ábendingum um „banvæn“ tjaldsvæði. Rúmlega þúsund manns hafa brugðist við færslunni þegar þessi frétt er skrifuð.

Það er svo fyndið hvað það er mikið af öðrum mæðrum sem tengja við þessa færslu en auðvitað bara í gríni. Þær hafa margar hringt í mig í hlæjandi og sent mér skilaboð um að þær séu líka með börnunum sínum í sumarfríi og séu í sömu hugleiðingum,“ segir Hulda í samtali við mbl.is.

Rúmlega þúsund manns hafa brugðist við færslunni sem Hulda birti …
Rúmlega þúsund manns hafa brugðist við færslunni sem Hulda birti inni á Facebook-hópnum „Landið mitt Ísland„. Skjáskot

Hulda var þó raunar ekki að leita að banvænu tjaldsvæði heldur tjaldsvæði sem hentar barnafjölskyldum.

„Ég var að leita að barnvænu tjaldsvæði því við erum nefnilega að fara með nokkur börn á tjaldsvæði en svo kom þetta bara svona skemmtilega út,“ segir Hulda í samtali við mbl.is.

Hún hafði að eigin sögn lesið yfir færsluna áður en hún birti hana en ekki tekið eftir innsláttarvillunni. Hún vissi því ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar athugasemdum við færsluna fór að rigna inn.

„Síminn minn fór allt í einu bara að pípa á fullu og ég hugsaði: „Voðalega er fólk eitthvað spennt að segja mér hvert ég á að fara! Þá fyrst tek ég eftir þessu,“ segir hún. „Ég var fyrst að spá í að breyta þessu en svo var þetta bara svo ótrúlega fyndið að ég ákvað að halda þessu.“

Athugasemdirnar við færsluna eru hver annarri kostulegri en hér eru nokkur dæmi:

Viltu mikið af veiru þá eða?

Hvar sem er rigningarspá, því þá eru líkur á því að þú deyir úr leiðindum.

Tja, Geldingadalir eru banvænir en ég veit ekki hvort þar séu ærslabelgur og róló.

Atlavík getur verið banvæn. Vatn alveg við tjaldsvæðið og hægt að týna börnunum í skógarferð.

Innan um allt grínið leyndust þó nokkrar góðar ábendingar um barnvæn tjaldsvæði en má þar helst nefna Hamra á Akureyri, Húsafell, Varmahlíð og Ásbyrgi. Fjölskyldan hefur þó ekki enn valið tjaldsvæði að sögn Huldu. Þau ætli sér þó að elta góða veðrið.

„Við eigum eftir að ræða þetta við hinn helminginn af fjölskyldunni. Það koma alveg nokkrir staðir til greina en það verður að vera sól. Þannig að við munum örugglega velja út frá því.“

mbl.is