Smitaður lenti í bílveltu

Í gærkvöldi var tilkynnt um bílveltu á Bústaðavegi. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar, en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá er maðurinn með Covid-19 og átti að vera í einangrun. Hann var fluttur í sóttvarnahús eftir aðhlynningu, en skemmdir urðu á ljósastaur, vegriði og staur fyrir myndavélakassa. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Skömmu eftir klukkan 21 var tilkynnt um slys í kvikmyndahúsi, en maður ætlaði að hlaupa út úr húsinu til að læsa bifreið sinni áður en myndin byrjaði og fór í gegnum rúðu með tvöföldu gleri. Ekki er vitað um ástand mannsins. 

Klukkan 22:26 var tilkynnt um hestaslys, en kona hafði fallið af hestbaki og fengið hestinn ofan á sig. Talið er að konan hafi handleggsbrotnað og farið úr axlarlið og var hún flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild. 

Tvær bifreiðar með sama skráningarnúmeri voru í gær stöðvaðar á Breiðholtsbraut og ökumenn þeirra kærðir fyrir misnotkun skráningarmerkja. Þá voru tvær bifreiðar stöðvaðar sem reyndust vera ótryggðar og voru skráningarnúmer þeirra fjarlægð. 

mbl.is