Telja sig verða að hleypa Íslendingum um borð

Allir farþegar á leið til Íslands eru beðnir um að …
Allir farþegar á leið til Íslands eru beðnir um að framvísa neikvæðu Covid-prófi við innritun á flugvellinum erlendis. mbl.is/Árni Sæberg

Ef íslenskir ríkisborgarar, jafnt bólusettir sem óbólusettir, framvísa ekki vottorði um neikvætt Covid-próf fyrir flugferð sína með Icelandair frá útlöndum til Íslands er þeim hleypt um borð en þeim gerð grein fyrir því að þeir gætu fengið sekt. Samkvæmt vefsíðu almannavarna, Covid.is, getur slík sekt numið 100.000 krónum.

Flugfélagið Play tilkynnti í dag að fólk sem ekki gæti framvísað niðurstöðu úr PCR-prófi fyrir brottför að utan yrði ekki hleypt um borð í vélar flugfélagsins.

Hvað varðar próflausa erlenda ríkisborgara er þeim ekki hleypt um borð hjá Icelandair erlendis en próflausum íslenskum ríkisborgurum er aftur á móti hleypt um borð. 

„Allir farþegar á leið til Íslands eru beðnir að framvísa neikvæðu Covid-prófi við innritun á flugvellinum erlendis. Svo er verklagið þannig að ef íslenskir ríkisborgarar eru að fljúga og eru ekki með neikvætt próf þá er þeim gerð grein fyrir því að þeir gætu þurft að þola sekt en þetta hefur ekki komið upp,“ segir Guðni Sigurðsson, staðgengill upplýsingafulltrúa Icelandair.

„Stefnan er að reyna að fá neikvætt próf hjá öllum en við teljum að samkvæmt lögum eigum við að hleypa Íslendingum um borð.“

Komufarþegar við Leifsstöð í gær.
Komufarþegar við Leifsstöð í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hleypa ekki smituðum um borð

Á þriðjudag tóku nýjar reglur á landamærum gildi sem kveða á um að allir, jafnt bólusettir, óbólusettir og þeir sem hafa áður greinst með Covid-19, skuli framvísa niðurstöðu úr neikvæðu Covid-prófi við komuna til landsins. Guðni segir að ef fólk greinist smitað af veirunni, sama hvort um sé að ræða íslenska eða erlenda ríkisborgara, sé því ekki hleypt um borð. 

„Ef fólk fær jákvætt úr prófi þarf það að vera áfram á þeim stað sem það greinist á.“

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði í samtali við mbl.is í dag að líklega myndi Ísland færast á rauðan lista Sóttvarnastofnunar Evrópu á morgun. Guðni segir að það sé á ábyrgð farþega að kanna hvaða áhrif það hafi á ferðalög þeirra. Það er til dæmis hægt að gera í gegnum kerfið Sherpa sem er aðgengilegt á vef Icelandair.

„Það er ákveðinn litakóði hjá Evrópu og svo eru lönd með mismunandi skilgreiningar á þessu. Við erum með kerfi á vefnum okkar sem heitir Sherpa. Það eru allar opinberar upplýsingar uppfærðar á klukkutíma fresti,“ segir Guðni. 

Hefja innritun 2,5 til 3 klukkustundum fyrir brottför

Langar raðir hafa myndast á Keflavíkurflugvelli að undanförnu vegna ferðamannastraums og flókinnar innritunar. Innritun hefst nú hjá Icelandair tveimur og hálfri til þremur klukkustundum fyrir brottför. 

„Þetta er mun flóknari innritun því það tekur mun lengri tíma að fara yfir öll gögnin. Svo er enn ekki hægt að vera með þetta rafrænt,“ segir Guðni sem hvetur farþega til að mæta tímanlega. 

Nýju reglurnar

Um vottorð sem þarf að framvísa áður en haldið er til Íslands segir á Covid.is:

  • Allir sem koma til landsins verða að sýna vottorð um neikvætt próf gegn COVID-19 (SARS-CoV-2) áður en þeir stíga um borð í flugvél eða skip á leið til Íslands og einnig við komuna. Börn fædd 2005 og síðar eru þó undanskilin.
  • Ferðamenn sem framvísa vottorði um fulla  bólusetningu eða fyrri skýkingu geta sýnt neikvætt PCR-próf eða hraðpróf (e. rapid antigen test). Ferðamenn sem ekki hafa vottorð um fyrri sýkingu eða fulla bólusetningu þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi.  
  • Prófið verður að hafa verið tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför (á fyrsta legg ferðar).
  • Eingöngu eru tekin gild vottorð á íslensku, norsku, sænsku, dönsku eða ensku.
  • Forskrá þarf niðurstöður rannsóknar.
  • Sekt fyrir brot á reglu um neikvætt PCR-próf eru 100.000 krónur.
  • Þeim sem hvorki eru íslenskir ríkisborgarar né með dvalarleyfi á Íslandi er vísað frá á landamærunum ef þeir eru ekki með vottorð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert