Þyrftu að taka heila álmu eða hótel úr notkun

Ferðamenn í Hvalaskoðun. Óbólusettir ferðamenn þurfa að sæta fimm daga …
Ferðamenn í Hvalaskoðun. Óbólusettir ferðamenn þurfa að sæta fimm daga sóttkví og skimun við komuna til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef eitt herbergi hótels er tekið undir sóttkví þarf að taka heila álmu eða heilt hótel úr notkun þar sem hótelin geta ekki látið fólk í sóttkví mæta venjulegum ferðamönnum á göngum eða í lyftum. Af öryggisástæðum hafa hótel því almennt ekki tekið á móti ferðamönnum í sóttkví undanfarið, að sögn Kristófers Oliverssonar, formanns Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Gylfi Þór Þor­steins­son, um­sjón­ar­maður far­sótt­ar­húsa, fjölda óbólu­settra ferðamanna sem taka út fimm daga sótt­kví og bíða eft­ir seinni skimun veru­lega íþyngj­andi fyr­ir starf­sem­ina. Ferðaþjón­ust­an mætti stíga inn og taka á móti þessu fólki. 

„Það sem haml­ar okk­ar starfi er að við erum með tölu­verðan fjölda af ferðamönn­um sem eru í fimm daga sótt­kví. Óbólu­sett­ir ferðamenn sem gætu verið ann­ars staðar, ef hót­el­in vildu taka við þeim. 180 manns sem gætu verið ann­ars staðar,“ sagði Gylfi.

Hreint og klárt öryggisatriði

Kristófer telur gagnrýnina ekki réttmæta og bendir á að það séu nokkuð mörg hótel nú þegar rekin sem sóttkvíarhótel í samstarfi við Rauða krossinn og þeim sé fjölgað eftir þörfum.

„Það er ekki auðvelt að blanda gestum sem eru í sóttkví við aðra hótelgesti svo þetta fyrirkomulag reynist ljómandi vel meðan núverandi sóttvarnareglur eru í gildi. Gylfi stefnir hraðbyri í að verða umsvifamesti hótelrekandi landsins og ætti kannski að sýna kollegunum meiri skilning,“ segir Kristófer.

„Rauði krossinn leigir mörg hótel af Íslandshótelum þar sem hefur verið mjög vel séð um þetta. Þetta er bara hreint og klárt öryggisatriði að blanda þessum gestum ekki saman og núverandi fyrirkomulag það skásta í stöðunni og nóg að gera hjá báðum aðilum.“

„Þetta er bara hreint og klárt öryggisatriði að blanda þessum …
„Þetta er bara hreint og klárt öryggisatriði að blanda þessum gestum ekki saman,“ segir Kristófer. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonar að sóttkvíarfyrirkomulagið verði endurskoðað

Kristófer segir að hótel hafi almennt boðið upp á sóttkví þegar þörfin hafi verið sem mest.

„Það má ekki gleyma því að það var búið að lýsa yfir eðlilegu ástandi fyrir skömmu. Ferðamenn fóru að koma. Þar af leiðandi var engin þörf fyrir að öll hótelin væru að taka á móti sóttkvíargestum. Nú er þetta að breytast aftur skyndilega,“ segir Kristófer og bendir á að ef hótel ætli að taka að sér ferðamenn í sóttkví þurfi að vísa frá ferðamönnum sem ekki þurfa að sæta sóttkví.

Hann vonast til þess að núverandi sóttkvíarfyrirkomulag verði endurskoðað fyrr en síðar í samræmi við ábendingar um að landsmenn þurfi að læra að lifa með veirunni.

„Undanfarið hafa málsmetandi menn innan heilbrigðisgeirans lýst því yfir að á næstu dögum sé komið að því að endurskoða núverandi fyrirkomulag og læra að lifa með veirunni. Það er sú leið sem ég sé vænlegasta út úr þeirri erfiðu stöðu sem nú er uppi.“

„Þetta er svolítið erfitt ástand sem við verðum bara öll …
„Þetta er svolítið erfitt ástand sem við verðum bara öll að leysa í sameiningu,“ segir Gylfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Dvöl á sóttkvíarhótelum endurgjaldslaus

Í samtali við mbl.is í dag segir Gylfi að það sé alveg rétt að erfitt sé fyrir hótelin að taka á móti fólki í sóttkví.  

„Það er til dæmis hluti af því að það er erfitt fyrir okkur [í farsóttarhúsum og á sóttkvíarhótelum] að blanda saman ferðamönnunum sem eru í fimm daga sóttkvínni við annaðhvort þá sem eru í einangrun eða eru útsettir, þá er hætta á smitum inn í hóp fólksins í fimm daga sóttkvínni. Þetta er svolítið erfitt ástand sem við verðum bara öll að leysa í sameiningu,“ segir Gylfi.

„Það er á borði ríkisstjórnarinnar að ákveða þetta en ferðaþjónustan gæti hugsanlega komið að einhverju leyti að borðinu. Það voru nokkur hundruð hótel tilbúin í að taka við fólki í sóttkví á sínum tíma. Þeim hefur fækkað eitthvað en hugsanlega er hægt að fjölga þeim aftur með því að þeir fái þá einhvers konar leiðbeiningar eða tilsögn um það hvernig sé best að setja þetta upp en að sjálfsögðu myndi það þá vera þannig að ferðamennirnir borguðu sjálfir fyrir dvölina.“

Dvöl á sóttkvíarhótelum er endurgjaldslaus og jánkar Gylfi því að líklega leiti fólk í sóttkví þar einmitt vegna þess að það sé ókeypis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert