Ellefu mínútur í hjartastoppi

Sigurbjörn í góðu yfirlæti á Ahus-sjúkrahúsinu þar sem hann dvaldi …
Sigurbjörn í góðu yfirlæti á Ahus-sjúkrahúsinu þar sem hann dvaldi í viku. Sjúkraflutningamenn voru nýkomnir á heimili hans þegar hjarta hans stöðvaðist aðfaranótt 14. júlí og var rafvirkinn í hjartastoppi í ellefu mínútur. Ljósmynd/Aðsend

Hjarta Sigurbjarnar Bjarnasonar, 55 ára gamals búfræðings og rafvirkja úr Hafnarfirði, til húsa í Lillestrøm í Noregi, stöðvaðist í ellefu mínútur aðfaranótt 14. júlí vegna stíflaðrar æðar. Hann hafði þá fundið fyrir ýmsum óþægindum, sem að lokum voru komin á það stig, að sambýliskona hans krafðist þess að hann hringdi á sjúkrabifreið. Ekki mátti það tæpara standa og voru sjúkraflutningamennirnir viðstaddir á heimili Sigurbjarnar þegar hjarta hans stöðvaðist.

Segja má að rafvirkinn hafi marga fjöruna sopið á vettvangi hjartans mála, því sumarið 1990 fékk hann veirusýkingu í hjarta, sem þá kvað nokkuð að á Norðurlandi, en Sigurbjörn var þá búsettur á Akureyri. Fór hjartsláttur hans þá niður í fjögur slög á mínútu þar sem hann lá á sjúkrahúsinu og fékk hann í kjölfarið gangráð, sem síðan hefur fylgt honum. En byrjum í Lillestrøm fyrir hálfum mánuði.

Lesinn pistillinn á rúmensku

„Þetta byrjaði með því að ég fékk mikla verki í báða handleggi, bringu og bak og neðri kjálka,“ segir Sigurbjörn af nóttinni sem hjarta hans stöðvaðist. „Svo þurfti ég að fara á dolluna og bara geri það, tæmi mig vel, og við það hverfa verkirnir. Ég fer þá bara að sofa í rólegheitum og vakna svo aftur um fjögurleytið um nóttina og þá með sömu verki, bara sinnum hundrað,“ segir Sigurbjörn.

Hann hugðist þá leysa málið með annarri salernisför, en greip þá sambýliskona hans, Gianina Calugaru, inn í og skipaði Sigurbirni að hringja á sjúkrabíl. „Hún sagði eitthvað á rúmensku sem ég held að þýði ekki neitt rosalega fallegt og það varð til þess að ég hringdi á sjúkrabíl,“ segir Sigurbjörn og hlær.

„Ég les alltaf Bændablaðið,“ segir Sigurbjörn sem auk rafvirkjunarinnar er …
„Ég les alltaf Bændablaðið,“ segir Sigurbjörn sem auk rafvirkjunarinnar er menntaður búfræðingur. Hér er hann kominn á fætur á sjúkrahúsinu og ber sig vel. Hann lét sér að kenningu verða að fá gula spjaldið með svo afgerandi hætti sem 14. júlí og drap í síðustu sígarettunni. „Ég á ekki að forðast neitt nema bara heimsku og þar undir eru reykingar,“ segir hann af læknisráðum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Í kjölfarið hafi hann verið orðinn verulega þungt haldinn af verkjum. Tveir sjúkraflutningamenn komu á heimili hans skömmu síðar og voru þeir viðstaddir þegar hjarta hans hætti að slá. „Þeir eru komnir hérna inn og eru við hliðina á mér þar sem ég sit í sófanum og þá stoppar hjartað, klukkan 04:42 og þeir komu mér í gang 04:53, þannig að ég var ellefu mínútur á einhverju bölvuðu flakki,“ segir hann frá.

Sjúkraflutningamennirnir lögðu búfræðinginn íslenska í skyndi á gólfið og hófu lífgunaraðgerðir með þeim búnaði sem þeir höfðu meðferðis. „Ég man ekki baun eftir þessu, ég datt alveg út þessar ellefu mínútur,“ segir Sigurbjörn. „Þegar ég rankaði við mér leið mér samt bara vel, það fyrsta sem ég kom auga á var arinninn í stofunni hjá mér, en enginn reykur og enginn með heykvísl nálægur svo ég sá strax að ég væri alla vega ekki kominn í neðra enn þá,“ segir hann og hlær svo bergmálar í símanum.

„Þeir settu mig bara í poka“

Sjúkraflutningamennirnir voru, þegar þarna var komið sögu, orðnir sex og þrjár sjúkrabifreiðar fyrir utan heimilið. „Ég bý uppi á annarri hæð og er náttúrulega hátt í núll komma eitt tonn að þyngd og það þurfti að koma mér niður. Þeir settu mig bara í einhvern poka sem þeir voru með og báru mig niður í honum, út í bíl og beint upp á sjúkrahús,“ rifjar hann upp.

Sigurbjörn og sambýliskona hans, Gianina Calugaru, sem las honum pistilinn …
Sigurbjörn og sambýliskona hans, Gianina Calugaru, sem las honum pistilinn á rúmensku þegar hann ætlaði ekki að hringja strax á sjúkrabíl. „Hún sagði eitthvað á rúmensku sem ég held að þýði ekki neitt rosalega fallegt og það varð til þess að ég hringdi á sjúkrabíl,“ segir búfræðingurinn af atburðum næturinnar örlagaríku. Ljósmynd/Aðsend

Farið var með Sigurbjörn rakleiðis á hjartadeild Rikshospitalet í Ósló þótt Ahus, Háskólasjúkrahúsið í Akershus, fylki sem nú heitir reyndar Viken, sé nær Lillestrøm. „Hjartadeildin er öflugri á Rikshospitalet var mér sagt og þarna var ég sem sagt kominn í fullorðinna manna tölu aftur,“ segir Sigurbjörn. Komið var fyrir svokölluðu stoðneti, eða „stent“, í æðinni, sem hafði nær algjörlega lokast, og var hann í kjölfarið fluttur yfir á Ahus-sjúkrahúsið þar sem hann lá í rúma viku í góðum höndum og voru æðar hans þar víkkaðar út. Sigurbjörn situr í góðu yfirlæti á heimili sínu þegar hann segir Morgunblaðinu af hremmingum sínum. Hann er í nokkurra vikna fríi frá vinnu, en má þó gera nánast það sem hann lystir.

„Ég á ekki að forðast neitt nema bara heimsku og þar undir eru reykingar,“ segir Sigurbjörn, sem var ekki lengi að drepa í eftir að hafa fengið gula spjaldið með svo afgerandi hætti. „Svo er bara að koma sér á lappir og hreyfa sig, ég er að éta einhverjar sex-sjö tegundir af pillum, sem ég verð á mislengi, blóðþynningarlyfjunum verð ég á ævina á enda.“

Þurfti að framlengja víxil

Þá víkur sögunni aftur á horfna öld, til sumarsins 1990, þegar Sigurbjörn var tæplega 25 ára gamall nemi í rafvirkjun við störf í Blönduvirkjun. „Þetta gerðist á föstudegi, ég man það nú alla vega þótt það séu komnar nokkrar vikur síðan,“ segir hann í léttum tón. „Þá var ég búinn að vera þarna í Blönduvirkjun frá því á mánudeginum og var farinn að fá einhverja leiðindaverki þegar ég hallaði mér fram. Svo ég fór til læknis á Akureyri, þegar ég kom aftur þangað þennan sama dag, og hann sá strax að eitthvað mikið amaði að mér og ætlaði bara að hringja á sjúkrabíl strax, en ég sagði honum að það gengi engan veginn, ég yrði að fara í bankann, þurfti að framlengja þar víxil,“ rifjar Sigurbjörn upp, og er sá fjármálagerningur meðal annars þess til vættis hve langt er um liðið.

Sigurbjörn fékk með eftirgangsmunum leyfi til að framlengja víxilinn, en slapp ekki við sjúkrahúsið. Þar kom í ljós, að hann var með veirusýkingu í gollurshúsinu, bandvefspokanum sem umlykur hjartað, og leið ekki á löngu uns sýkingin náði hjartavöðvanum. „Þeir voru nokkuð margir, sem fengu þessa sömu sýkingu þarna um þetta leyti og sumir fengu þetta í heilann, þar á meðal einn vinur minn, en það fór nú sem betur fer allt á besta veg hjá honum,“ segir Sigurbjörn frá.

Sigurbjörn og Gianina fagna jólum ásamt börnum Sigurbjarnar, Birki Má …
Sigurbjörn og Gianina fagna jólum ásamt börnum Sigurbjarnar, Birki Má og Söndru Hödd. Sigurbjörn má ekki aka bifreið um stund eftir hjartastoppið og lét þann draum rætast að kaupa sér innkaupakerru á hjólum til að létta sér lífið. „Nú er ég bara stolt gamalmenni,“ segir rafvirkinn glettinn. Ljósmynd/Aðsend

Svo mjög hafi verið dregið af honum sjálfum, eftir að hann var lagður inn, að hjartsláttur hans hafi á tímabili verið kominn niður í fjögur slög á mínútu. „Nær dauðanum verður ekki komist, eða ekki mikið alla vega. Þetta var þannig á tímabili, að ef ég lagðist út af hætti hjartað nánast að slá. Þá þurfti einhver að koma og „ýta mér í gang“. Í fyrstu var ekkert vitað hvað þetta var svo ég var þarna í lyfjagjöf og yfirsetu í einar fimm vikur á sjúkrahúsinu fyrir norðan.“

Fékk ranga rafhlöðu

Sigurbjörn var undir miklu eftirliti næstu misserin og að lokum var ákveðið, að bestu manna yfirsýn, að honum væri best borgið með gangráð sér til fulltingis og var slíkt tæki grætt í hann. „Þetta er bara eins og að vera með farsíma í vasanum, eða í raun mun minna mál, maður finnur ekkert fyrir þessu fyrir utan að skipta þarf um rafhlöðu í tækinu annað veifið. Þetta háir manni ekki neitt,“ segir Sigurbjörn af áratuga sambúð sinni við tækið.

Eitt sinn hafi þó snurða hlaupið á þráðinn, en það var þegar skipt var um rafhlöðu í rafvirkjanum og fyrir handvömm sett í hann röng rafhlaða. Þá var Sigurbjörn kominn til Noregs og vann að smíði olíuborpalls á eynni Stord árið 2009. „Svo skrapp ég í frí til Íslands og fór þá í gangráðstékk í leiðinni. Þá var mér sagt að rafhlaðan væri um það bil búin og ég settur beint í skipti með skurðaðgerð. Svo fæ ég símtal daginn eftir og mér sagt að koma strax, ég hafi fengið vitlausa rafhlöðu. Þannig að ég fór beint í aðgerð aftur og það var stysti tíminn sem ég upplifði milli þess sem skipt hefur verið um batterí í mér, einn dagur,“ segir Sigurbjörn og hlær við upprifjunina.

Eftir síðara hjartaatvikið núna í júlí má Sigurbjörn ekki aka bifreið um tíma og kveðst, til að auðvelda sér búðaferðirnar í þeirri nýju, en tímabundnu, tilveru, hafa látið nokkuð eftir sér, sem hann lengi hafi dreymt um í laumi, en aldrei beinlínis fundið rétta tilefnið til að taka skrefið. „Ég keypti mér svona innkaupakerru á hjólum, svona sem fólk dregur á eftir sér,“ segir hann frá, „þetta er til svona í köflóttu og ég var fyrst að leita að svoleiðis, en svo keypti ég mér svona meira nýmóðins tösku. Maður kemur leikandi kassa af bjór í þetta og hellingi að auki. Svo nú er ég bara stolt gamalmenni,“ segir Sigurbjörn Bjarnason, búfræðingur og rafvirki úr Hafnarfirði, sem oftar en einu sinni hefur staðið á mörkum tveggja heima, en er þó enn á sínum stað í Lillestrøm í Noregi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »