Fá bæði smitaða starfsmenn og aðstandendur

Hrafnista í Hafnarfirði.
Hrafnista í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að fá inn á heimilin bæði smitaða starfsmenn og aðstandendur,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, í samtali við mbl.is. María Fjóla segir þó að ekki hafi neinn heimilismaður greinst smitaður.

„Það eru þrír heimilismenn í sóttkví hjá okkur og talsvert margir starfsmenn eru í sóttkví. Við verðum að geta tryggt þjónustuna okkar og því höfum við þurft að kalla fólk í vinnusóttkví,“ segir María Fjóla og bætir við að sú ákvörðun sé ekki fyrsta val heldur neyðarúrræði sem sé gripið til í samstarfi við Almannavarnir. 

Með vinnusóttkví er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað meðan á sóttkví stendur. „Þessir einstaklingar fylgja ströngu verklagi og örum sýnatökum,“ segir hún og bætir við að hingað til hafi þetta úrræði gengið vel.

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna.
María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að koma í veg fyrir einangrun heimilismanna

Spurð hvort heimilismenn séu mikið fastir inni á herbergjum sínum segir María Fjóla að verið sé að reyna að koma í veg fyrir það. 

„Við viljum setja sem minnstar hömlur á heimilismenn, heldur frekar að setja þær á starfsfólk og aðstandendur,“ segir hún og nefnir að heimilin biðli til aðstandenda að einungis einn aðstandandi heimsæki hvern heimilismann. 

„Svona á meðan við erum að bíða og sjá hvaða áhrif smit hafa á bólusetta einstaklinga. Við erum samt ekki að banna neinar heimsóknir, heldur að biðla til aðstandenda,“ segir María Fjóla.

„Við erum líka að setja deildirnar í litlar búbblur til þess að sem minnstur samgangur sé á milli þeirra, svo við getum haft sem minnstar hömlur á íbúum. Þau eru búin að ganga í gegnum allmikið og verið lokuð inni í marga mánuði svo við erum að reyna gera allt til þess að hafa lífið sem eðlilegast fyrir heimilisfólk.“

Hræðsla við smit

María Fjóla nefnir að hljóðið í þeim sem eru í dagdvöl á heimilunum sé þungt. „Fólk er hrætt um hvað sé að gerast í samfélaginu. Það er hrætt við smit og hvaða áhrif það muni hafa. Við finnum fyrir því.“

Hún segir þó að ekki sé í kortunum að loka á þjónustuna. „Við eflum sóttvarnir því það skiptir máli að halda þessu gangandi.“

María Fjóla segir að ágætlega gangi að verja heimilin gegn smitum þar sem 30 ára og yngri eru ekki að koma inn á þau. 

„Stór hluti af starfsmannahópnum okkar er aftur á móti 30 ára og yngri. Þau eru hins vegar svo rosalega flott að þau sjálf, óumbeðin, eru búin að setja sjálf sig í ákveðna sóttkví. Þau þekkja áhættuna og það er ástæðan fyrir því að ekki hefur enn greinst smit á meðal heimilismanna miðað við það magn sem er í gangi í samfélaginu. 

Þetta eru mjög sérstakar aðstæður sem við erum í. Við erum með langþreytt starfsfólk sem er búið að vinna á Covid-tímum í alllangan tíma. Við verðum að geta hvílt fólkið okkar svo við missum það ekki í önnur veikindi og örþreytu.“

mbl.is