Janssen-þegar fái örvunarskammt í ágúst

Frá upplýsingafundi almannavarna.
Frá upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Þeir sem bólusettir voru með bóluefni Janssen og hafa ekki sögu um fyrri Covid-sýkingu munu geta fengið örvunarskammt með bóluefni Moderna eða Pfizer í þriðju viku ágústmánaðar, ekki í næstu viku eins og fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að álagið á heilbrigðiskerfið væri mikið og biðlaði hún til heilbrigðisstarfsfólks að skrá sig í bakvarðasveit. Nú hefur einnig verið opnað fyrir skráningu annarra en heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit.

Vegna mikilla anna leitar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nú eftir aðstoð við sýnatöku þar sem ekki verður krafist menntunar á sviði heilbrigðisþjónustu. 

Áfram þurfi skjaldborg

Alma sagði að smitrakning hafi verið flókin undanfarið og hvetur hún fólk til þess að uppfæra rakningarappið í símum sínum til að auðvelda smitrakningu.

Þá biðlaði hún til fólks að virða óvissuna og fara varlega. Áfram þurfi að slá skjaldborg um viðkvæma hópa og sinna einstaklingsbundnum smitvörnum. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is