Leiðrétta orð Víðis um sektir á landamærum

Tilkynning var send út á fjölmiðla nú í kvöld til …
Tilkynning var send út á fjölmiðla nú í kvöld til að leiðrétta misskilning er átti sér stað á upplýsingafundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði á upplýsingafundi í dag að ekki væri notast við sektir ef upp kæmi sú staða að ferðamenn kæmust til landsins án þess að framvísa neikvæðu Covid-19-prófi. Þetta er leiðrétt í tilkynningu frá almannavörnum, en 100 þúsund króna sekt bíður þeirra sem ekki framvísa slíku prófi.

„Nei það fer í þessa sýnatöku í staðinn, okkur finnst það betri leið til þess að ná til fólks án þess að ná í sektina,“ sagði Víðir á fundinum í dag er hann var spurður hvort ferðamenn væru sektaðir ef ekki væri framvísað neikvæðu prófi.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum að ferðamenn sem koma til landsins, hvort sem um ræðir Íslendinga eða erlenda gesti, þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi eða neikvæðu mótefnahraðprófi þegar farið er um borð í flugvél eða skip á leið til landsins.

Geri ferðamenn það ekki geta þeir átt von á að þurfa að greiða 100 þúsund króna sekt í ríkissjóð við komuna til landsins. Er þetta í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara.

mbl.is