Lögreglan í vandræðum með Vestfjarðagöng

Vestfjarðagöng eru einbreið að hluta.
Vestfjarðagöng eru einbreið að hluta.

Örtröð myndaðist í Vestfjarðagöngum nú á sjötta tímanum í kvöld. Lögreglubíll og sjúkrabíll lentu í verulegum vandræðum með að komast í gegnum göngin sökum umferðar. Sjúkrabíllinn var þá að ferja veikan einstakling á Ísafjörð.

„Göngin eru náttúrlega bara eins og þau eru, þ.e. einbreið að hluta. Þegar það er mikil umferð og mikið af fólki með eftirvagna getur verið ansi erfitt að víkja, bakka og fyrir okkur að komast í gegn,“ segir lögreglumaður á vakt fyrir vestan.

Spurður hvernig lögregla og sjúkralið beri sig almennt að því að komast fljótt í gegnum göngin segir hann: „Það bara fer eftir aðstæðum, hvort fólk fattar að víkja nógu snemma eða hvort við þurfum að bakka og færa okkur eins og þeir lentu í á sjúkrabílnum áðan.“

Allt gekk þó að lokum og viðkomandi manneskja er sjúkrabíllinn var að ferja komst til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Ísafirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina