Meirihluti starfsmanna ber ekki traust til Arnórs

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stærstur hluti starfsmanna Menntamálastofnunar ber ekki traust til forstjóra stofnunarinnar, Arnórs Guðmundssonar, samkvæmt könnun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét framkvæma. Alls ber 61% starfsmanna ekki traust til Arnórs.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag, en samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hafa 13% starfsmanna orðið fyrir einelti í starfi undanfarið ár og fjórðungur starfsmanna kveðst hafa orðið vitni að einelti. 

Svarhlutfall starfsmanna var 98% í könnuninni. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þrír starfsmenn sagt upp starfi sínu vegna m.a. stjórnunarvanda og eineltistilburða forstjórans. 

Forstjóri Menntamálastofnunar staðfestir í samtali við blaðið að málið sé í vinnslu án þess að vilja tjá sig frekar um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert