Sjaldan jafnmikill kraftur í gosinu

Gosið er í fullu fjöri um þessar mundir og bendir …
Gosið er í fullu fjöri um þessar mundir og bendir fátt til þess að dauði þess sé í nánd. mbl.is/Árni Sæberg

Allar fréttir af tilvonandi „dauða“ eldgossins í Geldingadölum standa ekki lengur undir sér, að því er nýjustu mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands benda til. Þetta er mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings.

Þótt lítið sjáist á vefmyndavél mbl.is sem stendur hefur krafturinn aukist og var umtalsverður í nótt og gærkvöld. Virknin virðist þá koma í reglulegum fösum, jafnan tveimur á sólarhring, þar sem hún er mikil og lítil til skiptis.

„Núna eru vísbendingarnar þær að þetta sé sennilega jafnkraftmikið og þegar mest hefur verið eða jafnvel enn kraftmeira,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

Allt bendir til þess að gosið sé nú jafnkraftmikið og þegar mest lét en annað var uppi á teningnum 2.-19. júlí, þegar meðalhraunrennslið var aðeins um 60-65% af því sem mældist lengst af í maí og júní.

Allt bendir til þess að gosið sé nú jafnkraftmikið og …
Allt bendir til þess að gosið sé nú jafnkraftmikið og þegar mest lét. Ljósmynd/Skjáskot

Verðum bara að bíða og sjá

Þann 16.-17. júlí fór virknin í reglulegan fasa, þar sem hálfan sólarhringinn var öflugt gos og hálfan sólarhringinn ekki, en áður hafði gosið verið öflugt með hléum; lengsta hléið var fjögurra sólarhringa kyrrð 6.-9. júlí.

„Síðustu mælingar bentu til minni virkni. Svo hefur ljósið eflst aftur svo allar fréttir af tilvonandi dauða þess eru ekki lengur í gildi. Það hefur aukist aftur og við verðum bara að bíða og sjá hverju fram vindur,“ segir Magnús.

Hraunflæðið mældist dagana 2.-19. júlí á bilinu 8 til 9 m3/s en nú mælist það um 11 m3/s en meðalþykknun í Meradölum síðustu 8-10 daga verið um einn metri á dag og því engin leið nú að segja til um goslok, að því er fram kemur á vef Jarðvísindastofnunar HÍ.

mbl.is