Stálu lyfjum og reiðufé

Tilkynnt var um þjófnað úr apóteki í Kópavogi klukkan 23 í gærkvöldi. Þjófarnir spenntu upp hurð að apótekinu og stálu lyfjum og reiðufé úr sjóðsvél. Samkvæmt dagbók lögreglu er málið í rannsókn. 

Um klukkan 17:30 í gær var tilkynnt um þjófnað úr fataverslun í miðbænum. Sá sem þar var að verki er þekktur hjá lögreglu og sást á upptöku úr öryggismyndavélum. Afskipti voru höfð af aðilanum skömmu síðar. Vörurnar fundust ekki en hald var lagt á fíkniefni. 

Skömmu fyrir klukkan 20 var tilkynnt um eignaspjöll í hverfi 108. Talið er að afturrúða bifreiðar hafi verið skotin með loftbyssu. 

Tveir ökumenn voru í nótt stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur. 

Skömmu fyrir klukkan 22 var tilkynnt um þjófnað í Hafnarfirði. Suzuki-utanborðsmótor af bát hafði verið stolið þar sem báturinn stóð við siglingaklúbb. 

Þá var klukkan 18 tilkynnt um eld í bifreið á Suðurlandsvegi. Slökkvilið kom á vettvang ásamt lögreglu og var bifreiðin fjarlægð með dráttarbíl. Eldurinn átti upptök sín í vél bifreiðarinnar. 

mbl.is