Taka á móti færri gestum þessa verslunarmannahelgi

Takmarkanir setja strik í reikninginn þar sem tjaldsvæðið getur ekki …
Takmarkanir setja strik í reikninginn þar sem tjaldsvæðið getur ekki tekið á móti jafn mörgum gestum og aðrar verslunarmannahelgar. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæðanna á Akureyri, segir að gert sé ráð fyrir að gestir muni streyma á tjaldsvæðin í kvöld og á morgun fyrir verslunarmannahelgina.

Þó setja takmarkanir strik í reikninginn þar sem tjaldsvæðið getur ekki tekið á móti jafn mörgum gestum og aðrar verslunarmannahelgar.

„Tjaldsvæðinu er skipt upp í sóttvarnahólf sem veldur nú svolitlum vandræðum en fólk lætur sig hafa það. Aðallega er vesen þegar það eru einhverjir sem ætla að koma og vera hjá einhverjum sem er nú þegar kominn en getur það ekki, þar sem það hólf er orðið fullt.“

Gengur furðuvel

Tryggvi segir tjaldsvæðið á Hömrum geta tekið á móti margfalt færri gestum nú en áður vegna takmarkana.

„Við getum tekið á móti 800 gestum að meðtöldum börnum núna en í sumar höfum við að meðaltali verið með 2.000 gesti á dag. Svo er líka bara erfitt að koma þessu í kring, að skipta úr einu kerfi í annað, það er búið að taka okkur sinn tíma.“

Tjaldsvæðinu er skipt upp í nokkur sóttvarnarhólf.
Tjaldsvæðinu er skipt upp í nokkur sóttvarnarhólf. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tryggvi segir einnig gesti sem dvelja á tjaldsvæðinu í töluverðan tíma ekki endilega á því að fara eða færa sig þó það sé eitthvað sem ekki stemmir í nýja skipulaginu.

„Þetta gengur samt furðu vel þrátt fyrir takmarkanir en það eru svona ýmsir hnökrar hjá okkur sem allir eru að vinna í til þess að uppfylla þessi skilyrði sem þarf.“

Hann segir að þekking og reynsla frá því í fyrrasumar komi að góðum notum.

Nóg um að vera þrátt fyrir takmarkanir

„Það eru tvö mót í gangi hérna þrátt fyrir að bæjarhátíðin, Ein með öllu, hafi verið felld niður. Svo er einnig fullt um að vera í bænum eins og venjulega en auðvitað háð fjöldatakmörkunum og grímuskyldu,“ segir Tryggvi.

Hann bætir svo við að engum ætti því að þurfa að leiðast um komandi verslunarmannahelgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert