Telja nauðsyn að börn verði bólusett

Umræða hefur verið um hvort kominn sé tími til að …
Umræða hefur verið um hvort kominn sé tími til að hefja bólusetningar á börnum gegn Covid-19. AFP

Umræða hefur verið um hvort kominn sé tími til að hefja bólusetningar
á börnum gegn Covid-19. Nýlega birtist stutt grein í blaðinu Pediatric Infectious Disease Journal (PIDH) eftir prófessorana Ásgeir Haraldsson, Þorvarð Jón Löve og Valtý Stefán Thors.

Í greininni lýsa þeir niðurstöðum tveggja rannsókna sem gerðar voru á Íslandi um afstöðu foreldra til bólusetningar barna.

Í fyrri rannsókninni fengu þeir svör um 3.400 foreldra barna yngri en 16 ára um það hvort þeir myndu þiggja bólusetningar fyrir börn sín. 80% foreldra svöruðu því jákvætt (líklega, mjög líklega og örugglega).

Í seinni rannsókninni fengu þeir svör nær 2.500 foreldra barna yngri en fjögurra ára hvort þeir myndu þiggja bólusetningu gegn Covid-19 fyrir börn sín. Tæplega 70% svöruðu jákvætt. Könnunin var gerð í febrúar og mars, þ.e. áður en umræða um bólusetningar barna gegn Covid-19 hófst að marki.

Það þurfi að stíga varlega til jarðar

„Í raun og veru snýst þetta annars vegar um bólusetningar almennt og það stendur til að útrýma Covid, hvort sem það síðan tekst eða ekki, að til þess að verja alla þá þarf að bólusetja alla,“ segir Valtýr Stefán Thors, prófessor og barnasmitsjúkdómalæknir og einn höfunda greinarinnar.

„Þessi umræða um bólusetningar hjá börnum er í raun og veru sú að börn svara bóluefnum yfirleitt mjög vel og við gerum ráð fyrir því að þau muni mynda gott ónæmi og vera vel varin.“

Valtýr segir langlíklegast að þessi bóluefni séu algjörlega örugg fyrir börn, þótt það sé ekki algjörlega ljóst ennþá. Hann segir það vera þess vegna sem þeir telji að það þurfi að stíga varlega til jarðar í þeim efnum að fara strax af stað.

„Ekki síst vegna þess að börnum farnast almennt séð mjög vel ef þau smitast af Covid. Þá eru þó aðrir þættir eins og langvarandi afleiðingar af Covid-sýkingum sem er ekki alveg vitað hvernig er hjá börnum sem við erum einmitt að rannsaka núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert