Telur lit Íslands ekki breyta miklu

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF. mbl.is/RAX

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að upplýsingaóreiða í kringum það hvernig Ísland verður skilgreint á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu hafi ekki dregið sérstakan dilk á eftir sér fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. 

Ljóst er að Ísland hefur verið flokkað sem appelsínugult ríki á uppfærðu korti Sóttvarnastofnunar Evrópu en í gær sagði Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, að það yrði líklega rautt.

„Bandaríkjamenn spá ekkert í þetta“

Litakóðunarkerfið er flokkun Sóttvarnastofnunar Evrópu, á vegum Evrópusambandsins, og gildir því einkum fyrir lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins. Stærsti hópurinn sem ferðast nú til Íslands er bólusettir Bandaríkjamenn.

„Bandaríkjamenn spá ekkert í þetta litakóðunarkerfi og í Evrópu er vægið að minnka. Það getur verið misjafnt milli landa en ég er ekki viss um að það breyti miklu hvort við séum appelsínugul eða rauð, svo eru einstaklingar misjafnlega innstilltir á þetta,“ segir Bjarnheiður.

Snýst um bólusetningar, frekar en smittíðni

„Það er ekki litið jafn mikið til litakóðunarkerfisins á mörkuðunum og var gert,“ segir hún og bendir á að stór fyrirtæki úti í heimi séu að senda fólk í ferðir til rauðra ríkja, þá helst bólusetta einstaklinga.

Bjarnheiður bendir á að í dag sé frekar horft á skilyrðin sem þarf að uppfylla þegar fólk kemur til baka úr utanlandsferðum og þau taki oftast mið af bólusetningum. 

„Fólk vill ekki þurfa að fara í sóttkví þegar það kemur heim úr Íslandsferð.“ 

Skörp skil eru tekin að myndast milli bólusettra og óbólusettra hópa í ferðaþjónustunni að sögn Bjarnheiðar en flestir ferðamenn sem koma til Íslands eru bólusettir.

Flokkunarkerfið muni taka breytingum

Bjarnheiður á von á að flokkunarkerfið muni taka breytingum á næstunni og fleiri breytur teknar inn í það. Ekki verði bara litið til smittíðni og hlutfalls jákvæðra sýna, eins og nú, heldur frekar til bólusetningarhlutfalls og alvarlegra veikinda. 

„Við erum í millibilsástandi meðan við finnum út úr því hvort bólusetningar verndi fólk fyrir alvarlegum veikindum og við erum því ekkert að fara á taugum yfir þessu,“ segir hún og á þá við lit Íslands samkvæmt litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert