Þora ekki að tjá sig af ótta við uppsögn

sextíu og eitt prósent starfsfólks ber ekki traust til for­stjór­a …
sextíu og eitt prósent starfsfólks ber ekki traust til for­stjór­a stofnunarinnar, Arn­órs Guðmunds­son­ar. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstöður úr könnun Menntamálastofnunar sem gefa til kynna vantraust og einelti má jafnvel rekja til þess hvernig staðið var að samrunanum sem varð að MMS á sínum tíma, að mati Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns pírata og fyrrverandi starfsmanns Menntamálastofnunar. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét í vor framkvæma könnun meðal starfsfólks hjá MMS. Svarhlutfall var 98%, sem verður að teljast gott. Meirihluti starfsfólks, 60%, sagðist ekki bera traust til yfirstjórnar stofnunarinnar og 61% ber ekki traust til forstjórans, Arnórs Guðmundssonar. Greint var frá þessu í Fréttablaðinu

Jafnframt kemur fram að 13% starfsfólks segjast hafa orðið fyrir einelti í starfi og 25% segjast hafa orðið vitni að einelti á síðustu 12 mánuðum. Starfsfólk lýsir starfsandanum sem þungum, það sé hrætt um störf sín og þori ekki að tjá skoðanir sínar. 

Rætur í samrunanum

Ýmislegt hefði mátt fara betur að mati Björns Levís, við samruna stofnananna Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar sem urðu að MMS. Það hafi haft áhrif á starfsandann og mögulega undið upp á sig svo ástandið er nú eins slæmt og skýrslan gefur til kynna.

Björn Leví rifjar upp hvernig keypt var þjónusta frá ráðgjafarfyrirtæki til að komast að því hvernig starfsfólk vildi vinna saman að verkefnum þeim sem stofnuninni voru fengin. 

Björn Leví telur að sjórnendum hafi ekki líkað niðurstöðurnar og þá var í tvígang keypt sambærileg þjónusta. Niðurstöður voru alltaf á sama veg og var þá farin önnur leið, sem mörgum sárnaði. 

„Þetta leit út eins og stjórnendur væru að reyna að fá ákveðnar niðurstöður í þetta ferli,“ segir hann og bætir við: „Þá líður manni eins og maður sé plataður, sjónhverfing að hafa eitthvað um málin að segja.“

Björn Leví Gunnarsson starfaði hjá Menntamálastofnun þegar samruninn átti sér …
Björn Leví Gunnarsson starfaði hjá Menntamálastofnun þegar samruninn átti sér stað. mbl.is/Eggert

Þrír hafa sagt upp

Forstjórinn, Arnór Guðmundsson, hefur verið sakaður um eineltistilburði og ógnarstjórnun. Björn Leví segir að Arnór hafi á sínum tíma komið inn með hugmyndir um það hvernig stofnunin ætti að virka og nýja aðferðafræði. Það hafi myndast togstreita í kringum breytingar sem hann gerði. 

Þrír starfsmenn hafa sagt upp vegna stjórnunarvanda, stefnuleysis og eineltistilburða forstjóra MMS, þetta staðfestir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Heilsufarsmat og umbótaáætlun

„Ég tek niðurstöður skýrslunnar alvarlega,“ segir Lilja en kveðst ekki geta tjáð sig um einstaka atriði málsins að svo komnu máli. 

Lilja bindur miklar vonir við að málin muni leysast með hjálp umbótaáætlunar frá mannauðsfyrirtækinu Auðnast sem fengið hefur verið í verkið af ráðuneytinu. Framkvæmt verður heilsufarsmat á starfsfólki MMS að loknu sumarfríi. 

Björn Leví er ekki jafn bjartsýnn á það. „Það kæmi mér á óvart að þetta virkaði en fólk getur ákveðið að taka hlutina alvarlega og hlusta,“ segir hann og er þá að vísa til þess að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtæki koma inn í starf stofnunarinnar. 

„Ég hef spurt um kostnað við ráðgjöf fyrir stofnanir, væri ekki hægt að gera þetta á hagkvæmari hátt?“ spyr Björn Leví en honum þætti eðlilegt að nýta reynslu sem er fyrir hendi innan stjórnsýslunnar til að leysa mál sem þetta.

mbl.is