Þurfa að dúsa erlendis ef þeir smitast þar

Mynd frá Leifsstöð. Þar hefur verið nóg að gera undanfarið, …
Mynd frá Leifsstöð. Þar hefur verið nóg að gera undanfarið, bæði vegna ferðalaga Íslendinga erlendis og ferðalaga erlendra ferðamanna hingað til lands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingum, og öðrum, sem greinast smitaðir af kórónuveirunni erlendis, er óheimilt að fljúga í almenningsflugi til Íslands. Þeir þurfa því að sæta sinni einangrun erlendis, nema þeir geti útvegað sér einkaflug eða sjúkraflug.

Einangrunin er mislöng eftir löndum en hér á landi lýkur henni þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu smits og sjúklingur hefur verið einkennalaus í sjö daga.

Síðastliðinn þriðjudag tóku hertar aðgerðir á landamærum gildi. Með þeim þurfa bólusettir, rétt eins og óbólusettir, að framvísa niðurstöðum úr Covid-prófi áður en þeir halda til landsins. Ef Íslendingar framvísa ekki slíku vottorði eiga þeir í einhverjum tilvikum á hættu að fá ekki að fara um borð í flugvél. Ef þeim er hleypt um borð og þeir koma vottorðslausir til landsins fara þeir í skimun við komuna til landsins.

Sektum verður ekki beitt, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá Almannavörnum.

Sjúkraflug eða einkaflug eina leiðin heim

Samkvæmt stjórnarskrá er óheimilt að meina Íslendingum að koma til Íslands en Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir skýrt að smitaðir Íslendingar megi ekki fara í áætlunarflug.

„Samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni má einstaklingur með smitandi sjúkdóm ekki fljúga í almenningsflugi. Þeir sem hafa tök á að útvega einkaflug, eða ef heilsufar er þannig að mögulegt er að útvega sjúkraflug, þá er það náttúrlega kostur því að þeir eiga náttúrlega rétt á því að koma til landsins, en sá réttur nær ekki til þess að setja aðra í hættu,“ segir Kamilla í samtali við mbl.is.  

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/almannavarnir

„Ólöglegt og ósiðlegt“ að fljúga með hættulegan sjúkdóm

Því er ljóst að í flestum tilvikum munu smitaðir Íslendingar erlendis þurfa að halda kyrru fyrir í sinni einangrun og komast ekki heim fyrr en þeir greinast ósmitaðir.

Spurð hvort Almannavarnir hafi ekki áhyggjur af því að Íslendingar sem greinist smitaðir erlendis framvísi einfaldlega ekki vottorði við byrðingu erlendis til þess að sleppa við að vera fastir erlendis í veikindum sínum segir Kamilla:

„Það er alveg hugsanlegt að fólk taki upp á því, en það er ólöglegt og ósiðlegt að fljúga vísvitandi með sjúkdóm sem getur verið hættulegur öðrum.“

Mikilvægt að skýrar lagaheimildir séu til staðar

Icelandair gaf það út í gær að Íslendingar sem ekki gætu framvísað niðurstöðu úr neikvæðu Covid-prófi við byrðingu erlendis fengju að fljúga með félaginu til Íslands. Það fengju erlendir ferðamenn þó ekki. Félagið mun ekki hleypa smituðum um borð. 

Flugfélagið Play ætlar aftur á móti ekki að hleypa fólki sem skortir niðurstöðu úr neikvæðu Covid-prófi um borð í sínar vélar, sama hvort um Íslendinga eða erlenda ríkisborgara er að ræða.

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir í samtali við mbl.is að skýrar lagaheimildir þurfi að vera til staðar fyrir sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Ef fólk telji að það hafi orðið fyrir tjóni vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda sé best fyrir það að leita réttar síns.

„Það er auðvitað verkefni lögmannanna að leita hagsmuna fólks ef á þeim er brotið. Við erum auðvitað fúsir til þess á þessum sviðum sem svo mörgum öðrum,“ segir Jón Steinar.

mbl.is