Andrea Bocelli ætlar til Íslands sama hvað

Andrea Bocelli.
Andrea Bocelli.

Enn á ný ríkir óvissa um tón­leik­a ít­alska ten­órs­ins Andrea Bocelli, sem fara eiga fram í Kórn­um 27. nóvember en tónleikunum hefur nú þegar verið frestað í tvígang. Þeir sem eiga miða á tónleikana þurfa þó ekki að örvænta því það er alveg öruggt að tónleikunum verður ekki aflýst. Andrea Bocelli ætlar að koma til Íslands, að sögn Ísleifs Þórhallssonar, framkvæmdastjóra Senu.

„Við erum náttúrlega bara í biðstöðu með tónleikana eins og allir aðrir. Við erum bara að bíða og sjá hvað gerist næst. Þetta skýrist væntanlega núna í næstu viku og þegar nær dregur 13. ágúst,“ segir Ísleifur í samtali við mbl.is.

„Það er alveg öruggt að tónleikunum verður ekki aflýst. Þau eru alveg til í að fresta þessu eins og þarf að fresta. Þau ætla að koma til Íslands. Þau eru bara, eins og allir í þessum bransa, alvön þessu ástandi. Það eru bara allir í því að fresta út í eitt þar til þetta er yfirstaðið. Þannig að við erum alveg búin að ræða það að þessu verður aldrei aflýst.“

Miðasalan á tónleikana hefur gengið framar vonum að sögn Ísleifs en aðeins örfáir miðar eru eftir í sölu. 

„Það var svo til uppselt á tónleikana strax í byrjun þegar miðarnir fóru í sölu. Fólk hefur meira og minna haldið miðunum sínum í gegnum þetta ástand og í gegnum þessa frestun. Það hafa fáir skilað miðum. Það voru bara örfá sæti eftir þegar miðarnir höfðu verið nokkra daga í sölu. Það er kannski búið að skila 5-10% af miðunum þannig að það er bara voða lítið laust,“ segir hann.

„Fólk vill hafa eitthvað til að hlakka til“

Þá segir Ísleifur ánægjulegt hve margir hafa ákveðið að halda miðunum sínum þrátt fyrir óvissuna.

„Það hefur verið voðalega ánægjulegt í gegnum allt þetta ástand og alla þessa viðburði sem við höfum þurft að fresta oftar en einu sinni hvað fólk er duglegt að halda í miðana sína. Við erum voðalega þakklát og ánægð með það. Fólk vill hafa eitthvað til að hlakka til og vill ekkert skila miðunum sínum.“

Inntur eftir því segir Ísleifur það alveg öruggt að þeir sem vilja fá miðana sína endurgreidda.

„Fólk er alveg öruggt. Það brennur aldrei inni með miðana. Alltaf þegar við færum viðburði hefur það rétt til að skila miðunum og allir hafa alltaf getað fengið endurgreitt án vandræða.“

Enn eru nokkrir miðar á tónleikana í sölu en verðið á þeim er misjafnt eftir svæðum. Þá eru ódýrustu miðarnir á 12.990 kr. en þeir dýrustu á 35.990 kr. Hægt er að kaupa miða á tónleikana á vef Senu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert