„Fleiri smit en nokkru sinni fyrr, dag eftir dag“

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis hefur áhyggjur af ástandinu.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis hefur áhyggjur af ástandinu. mbl.is/Árni Sæberg

Kamilla segir að tölur dagsins yfir fjölda kórónuveirusmita séu ekki orðnar alveg marktækar enn þá. „Það sem þær sýna er þó að við erum með miklu fleiri smit en nokkru sinni fyrr, dag eftir dag.“

Sýni sem berast rannsóknarstofunni seint á kvöldin eru ekki keyrð í gegnum kerfið fyrr en að morgni daginn eftir. Því eru tölurnar ekki endanlegar fyrr en síðdegis. 

„Við uppfærum samt covid.is á þeim tíma sem fólk er orðið vant svo það verði ekki óþarfa ruglingur. Það breytir ekki öllu hvort smitin eru 112 eða 120,“ segir Kamilla.

Áhyggjur af ástandinu

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af verslunarmannahelginni sem fram undan er segist hún hafa áhyggjur af ástandinu. „Tveggja daga eða þriggja daga helgi skiptir ekki máli.“

Það sem skiptir máli, að mati Kamillu, er að fólk hugi að persónubundnum smitvörnum og sé ekki í stórum hópi ókunnugra. Þá sé betra að halda sig með þeim sem maður tengist og þekkir og er í góðum samskiptum við.

Of margir ekki í sóttkví við greiningu

Smitrakning hefur verið erfið, að sögn Kamillu. Mörg hundruð manns hafa þurft að fara í sóttkví á hverjum degi og hún segir enga leið að vera með þá vinnu klára innan sólarhrings eins og æskilegt væri.

„Stærsti þátturinn í því hvað þetta er að breiðast út hratt er hve margir eru ekki í sóttkví við greiningu. Fólk er búið að vera að umgangast aðra fram á seinustu stundu.“

mbl.is