Gefa ekki upp hlutfall bólusettra á spítala

Ekki fást upplýsingar um hve margir af þeim sem liggja …
Ekki fást upplýsingar um hve margir af þeim sem liggja inni á spítala með Covid-19 hafa fengið bólusetningu. Ljósmynd/Landspítalinn

Embætti landlæknis kveðst ekki munu strax upplýsa um hlutfall bólusettra meðal þeirra sem greinst hafa með Covid-19 og hafa legið á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins í júlímánuði. 

„Það verður ekki gefið út fyrr en komið er lengra frá innlögn til að það sé minni hætta á að þetta verði persónugreinanlegt í hópi kunningja,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis. Tíu lágu á sjúkrahúsi vegna Covid-19 þegar mbl.is ræddi við Kamillu en einn þeirra hefur nú verið útskrifaður.

Hve margir þurfa að hafa lagst inn til þess að þið teljið tímabært að upplýsa um þetta?

„Það er engin ein tala sem við miðum við. Við tökum þetta eftir því hvenær það telst marktækt að birta þetta, margir eru bólusettir en ekki allir. Það verða mögulega birtar vikulegar niðurstöður í framhaldinu,“ segir Kamilla.

Auðveldara að rekja upplýsingar þegar hópur er fámennur

Eðli málsins samkvæmt er almennt auðveldara að rekja tölfræðiupplýsingar til einstaklinga þegar um er að ræða mjög fámennan hóp fólks, jafnvel bara einn eða tvo einstaklinga,“ sagði Helga Sigríður Þórhallsdóttir, staðgengill forstjóra Persónuverndar, þegar mbl.is leitaði álits hennar á því hvort upplýsingar um bólusetningarstöðu þeirra sem liggja eða hafa legið inni á spítala vegna Covid-19 séu persónugreinanlegar upplýsingar.

Þá bætti hún við að eftir því sem hópurinn væri stærri kynni að vera auðveldara að veita slíkar upplýsingar án þess að þær séu persónugreinanlegar.

Hún leggur þó áherslu á að Persónuvernd geti ekki tekið afstöðu til málsins sérstaklega, þar sem það og málavextir í því hafi ekki verið rannsakaðir, sem og þær forsendur sem liggja að baki ákvörðun Landspítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert