Óskar eftir aðstoð vegna Janssen-tölfræði

Þá kemur einnig til skoðunar hvort stöðuna megi rekja til …
Þá kemur einnig til skoðunar hvort stöðuna megi rekja til aldursröðunar, en það var að megninu til ungt fólk sem fékk Janssen og unga fólkið hefur verið talið gjarnara til hópamyndunar en aðrir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, segir að verið sé að skoða hvers vegna hlutfall smitaðra Janssen-þega er sexfalt hærra en hlutfall smitaðra sem þegið hafa annað bóluefni. 

Hún telur að þetta geti líklega bæði skýrst af því að Janssen-þegar fari frekar í sýnatöku því þeir séu líklegri til að finna fyrir einkennum og að þeir sem fengið hafa Janssen séu líklegri til að smitast.

Þá kemur einnig til skoðunar hvort stöðuna megi rekja til aldursröðunar, en það var að megninu til ungt fólk sem fékk Janssen og unga fólkið hefur verið talið gjarnara til hópamyndunar en aðrir.

„Þetta er flókin tölfræði sem ég hef leitað aðstoðar með og vonast til að geta unnið það áfram um helgina.“

Vonar að örvunarskammtar efli varnir þessa hóps

Byrjað verður að gefa Janssen-þegum örvunarskammta í þriðju viku ágústmánaðar. Kamilla segist vona að það muni efla varnir þessa hóps og draga úr smitum innan hans.

Kamilla telur að það muni sennilega hafa áhrif á það hvernig horft verður til áhættunnar af smittíðni. „Það er samt ekki það sem rekur þessa ákvörðun,“ segir hún og bætir við að fyrst þurfi að sjá hvernig þátttakan verður.

mbl.is