Sló starfsmann í andlitið

Í gær var tilkynnt um þjófnað úr verslun í miðbænum. Starfsmenn verslunarinnar fóru á eftir þjófnum og endurheimtu þýfið, en þjófurinn sló annan starfsmanninn í andlitið þegar þýfið var endurheimt. Þjófurinn komst síðan undan og er málið í rannsókn samkvæmt dagbók lögreglu. 

Þrír ökumenn voru í gærkvöldi og nótt stöðvaðir vegna gruns um ölvunarakstur. Þá var einn ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og annar grunaður um akstur sviptur ökuréttindum. Einn ökumaður var stöðvaður eftir að hafa ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi og fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. 

Þá var bifreið stöðvuð í Breiðholti um klukkan 21:40 þar sem tveir farþegar í aftursæti bifreiðarinnar voru ekki í öryggisbelti. Farþegarnir, sem voru 17 ára, stóðu í topplúgu bifreiðarinnar þegar lögregla stöðvaði hana. Forráðamenn voru upplýstir um afskiptið lögreglu og tilkynning var send til barnaverndar. 

Skömmu fyrir klukkan 2:40 í nótt voru tveir undir menn handteknir í Kópavogi, grunaðir um nytjastuld bifreiðar. Mennirnir reyndu einnig að stela léttu bifhjóli en eigandi þess náði að stöðva mennina sem voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu. 

mbl.is