„Vonandi getum við haldið hlaup“

Óvíst er hvort hægt verði að halda Reykjavíkurmaraþonið með hefðbundnu …
Óvíst er hvort hægt verði að halda Reykjavíkurmaraþonið með hefðbundnu sniði í ár. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Fundað var um afdrif Reykjavíkurmaraþonsins í morgun. Til stóð að halda hlaupið 21. ágúst en óljóst er hvort hægt verður að halda það með hefðbundnu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Stefnt er að því að taka endanlega ákvörðun um það á miðvikudag, að sögn Silju Úlfarsdóttur, upplýsingafulltrúa Íþróttabandalags Reykjavíkur.

„Við funduðum í morgun og erum bara að bíða eftir frekari upplýsingum sem okkur vantar og vonum að við getum kannski klárað þetta á miðvikudaginn. Okkur langar að fara að taka ákvörðun og klára þetta en við erum ekki komin með nógu mikið af upplýsingum,“ segir Silja.

Hvaða upplýsingar eru það sem ykkur vantar?

„Við viljum gera þetta í samráði við almannavarnir en það er bara svo margt sem kemur að því að halda fjölmennt hlaup þannig að við erum bara að velta öllum steinum við.“ 

Innt eftir því segir Silja stefnt að því að safna fyrir góðgerðarfélögin þótt hlaupið verði kannski ekki haldið. 

„Við munum gera eitthvað til að safna en vonandi getum við haldið hlaup.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert