100 sjúkraflugsferðir í júlímánuði

Áhöfn 100. sjúkraflugs mánaðarins. Frá vinstri, Ársæll Gunnlaugsson flugstjóri, Guðmundur …
Áhöfn 100. sjúkraflugs mánaðarins. Frá vinstri, Ársæll Gunnlaugsson flugstjóri, Guðmundur Óli Scheving flugmaður, Stefán Geir Andrésson sjúkraflutningamaður og Barbara Ruth Hess læknir. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið Mýflug flaug hundraðasta sjúkraflug mánaðarins nú í dag. Ársæll Gunnlaugsson, flugstjóri hjá Mýflugi, segir yfirleitt meira álag á sumrin en þó hafi aldrei verið flogið svo oft í einum mánuði frá upphafi sjúkraflugs í flugvélum hér á landi. Hann segir faraldurinn þó ekki ástæðu álagsins.

„Við sinnum sem sagt öllu sjúkraflugi í flugvélum á landinu og gerum út með tvær sérútbúnar vélar frá Akureyri,“ segir Ársæll. Fjórir manna áhöfn vélanna hverju sinni og eru það flugstjóri, flugmaður, sjúkraflutningamaður frá slökkviliði Akureyrar og læknir frá sjúkrahúsinu á Akureyri.

Flug ofan í flug

Ársæll segir hvert flug almennt vera tvo til þrjá leggi. „Við fáum þá boð frá neyðarlínunni, fljúgum þá kannski austur á Egilsstaði, þaðan til Reykjavíkur með sjúklinginn og svo loks aftur norður til Akureyrar.“

Spurður hvort þetta sé ekki búið að vera mikið álag segir hann: „Jú, eins og þetta er búið að vera undanfarið þá kemur bara flug ofan í flug ofan í flug. Við erum eins og ég segi með tvær vélar og þær hafa margoft verið báðar í loftinu á sama tíma í þessum mánuði.“

Ekki hægt að kenna Covid-19 um

En eruð þið þá að ferja einstaklinga vegna Covid-19?

„Já við höfum verið að gera það, en þó hefur ekkert flug verið tengt því í þessari bylgju. Í fyrri bylgjum þurftum við að sinna því, en núna er fólk ekki að veikjast jafn mikið. Því er ekki hægt að kenna faraldrinum um álagið.“

Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningum um land allt undanfarin misseri, hvort sem er á landi eða í lofti. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti þá 156 verkefnum á sjúkrabílum í gær, þar af 29 flutningum tengdum Covid-19.  

mbl.is