Andlát: Gísli J. Alfreðsson, fv. þjóðleikhússtjóri

Gísli J. Alfreðsson.
Gísli J. Alfreðsson.

Gísli J. Alfreðsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, lést á Landspítalanum sl. miðvikudag, 28. júlí, 88 ára að aldri.

Gísli Jakob fæddist 24. janúar 1933 og ólst upp í Keflavík. Foreldrar hans voru Alfreð Gíslason, bæjarfógeti og sýslumaður í Keflavík, (1905-1976) og Vigdís Jakobsdóttir (1906-2001).

Strax á barnsaldri steig Gísli fyrst á leiksvið, þ.e. með barnastúku í Keflavík og var þátttakandi í útvarpsleikritum. Gísli stundaði nám í Leiklistarskóla Ævars Kvaran samhliða menntaskólanámi, lauk stúdentsprófi frá MR og stundaði nám í rafmagnsverkfræði í tvö ár við Technische Hochschule í München. Sneri sér þó fljótlega að leiklistinni og hóf nám við Leiklistarskóla Kammerspieleleikhússins í München.

Að námi loknu starfaði Gísli við Residenz-Theater í München í eitt ár auk þess sem hann var aðstoðarleikstjóri við þáttagerð í sjónvarpi. Gísli leikstýrði nokkrum verkum hjá Grímu eftir heimkomuna og var leikari við Þjóðleikhúsið 1962-1983. Hann var þjóðleikhússtjóri 1983-1991 og skólastjóri Leiklistarskóla Íslands 1992-2000. Þá leikstýrði hann fjölda leikrita í útvarpi og sjónvarpi. Eftir starfslok hjá Þjóðleikhúsinu lék Gísli í nokkrum kvikmyndum, m.a. þýskum myndum. Þá þýddi Gísli á annan tug leikrita fyrir leiksvið og útvarp, var lengi í stjórn Félags íslenskra leikara og formaður þess 1975-1983.

Gísli kvæntist í apríl 1967 Guðnýju Árdal (f. 1939), fyrrv. ritara. Gísli var áður kvæntur Juliane Michael leikkonu en þau skildu. Börn Gísla og Guðnýjar eru Anna Vigdís Gísladóttir (f. 1967) og Alfreð Gíslason (f. 1975). Stjúpbörn Gísla eru Helga Elísabet Þórðardóttir (f. 1956), Úlfar Ingi Þórðarson (f. 1959), Einar Sveinn Þórðarson (f. 1961) og Þórður Jón Þórðarson (f. 1963). Dóttir Gísla frá því áður er Elfa Gísladóttir (f. 1955). Afa- og langafabörnin eru alls sautján.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »