Skjálfti 3,3 að stærð í Kötlu

Katla. Yfirleitt er meiri virkni á svæðinu á sumrin, vegna …
Katla. Yfirleitt er meiri virkni á svæðinu á sumrin, vegna bræðsluvatns. mbl.is/Rax

Tveir jarðskjálftar mældust í dag í Kötlu, annar var um eittleytið og var 3,3 að stærð og hinn örlítið seinna og 2,1 að stærð.

Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er um að ræða svipaða skjálfta og urðu fyrir tveimur dögum og á svipuðum stað, norðaustanverðri Kötluöskju.

„Við höfum séð töluvert af svona smærri skjálftum í Mýrdalsjökli núna og síðustu daga.“

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Virkni sem hefur sést áður á sumrin

Salóme segir að yfirleitt sé meiri virkni á svæðinu á sumrin og að það haldist í hendur við að það sé meira bræðsluvatn vegna hita í jöklinum sem safnist fyrir í Suðkötlum.

„Þetta er svona það sem við höfum séð áður á sumrin, svona svolítil sumarvirkni í Mýrdalsjökli, og það má segja að það hafi komið smá leki úr jarðhitakerfunum í gær sem var mjög minniháttar en vottar aðeins fyrir að þar væri jarðhitavatn í ánni.“

Í gær sagði Einar Pétursson jarðeðlisfræðingur að ekki þyrfti að koma á óvart að skjálftar mældust við Kötlu. Þar sem ekki væri vísbending um neinn gosóróa væri ekki tilefni til að óttast.

„Katla er nátt­úr­lega fræg fyr­ir að vera með stöðuga skjálfta­virkni þannig að það kem­ur ekk­ert á óvart. Það sem hef­ur kannski held­ur komið á óvart er hvað hún er búin að vera óvenjuró­leg síðustu árin. Núna er hún að ná sínu venju­lega ástandi,“ sagði Ein­ar.

mbl.is