Yfirgaf sóttvarnahús undir áhrifum áfengis

Skömmu fyrir klukkan 22:50 í gærkvöldi handtók lögregla ofurölvi mann við Hlemm í Austurbæ. Maðurinn átti að vera í sóttvarnahúsi sem hann hafði yfirgefið og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi verið vistaður sökum ástands í fangageymslu. 

Skömmu eftir klukkan 2:40 í nótt voru höfð afskipti af konu í verslun, en konan er grunuð um vörslu fíkniefna og var stödd í versluninni ásamt kærasta sínum sem var staðinn að þjófnaði á kerti. Mál beggja voru afgreidd með vettvangsskýrslum. 

Þá var töluverður fjöldi ökumanna stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ýmist áfengis eða fíkniefna eða ökuréttindaleysi. Einn var stöðvaður fyrir hraðakstur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert