Akureyrarflugvöllur yfirfullur af einkaþotum

Það er varla hægt að skipta um skoðun á Akureyrarflugvelli …
Það er varla hægt að skipta um skoðun á Akureyrarflugvelli eins og staðan er núna, svo mikið er af einkaþotum á vellinum. Ljósmynd/Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

Akureyrarflugvöllur er nú nánast yfirfullur af einkaþotum eins og sjá má á myndum sem Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Cirle Air, tók í dag. 

Þorvaldur segir við mbl.is að flestar þoturnar séu í eigu Bandaríkjamanna og Breta og má ímynda sér að þeir séu hingað komnir til að veiða í íslenskum ám. 

Hann bendir einnig á að nú sé svo komið fyrir innviðum í flugi á Íslandi að farþegaþotur þurfi að vera með aukaeldsneyti á tönkum sínum, ef ske kynni að ekki sé hægt að lenda í Keflavík.

Vanalega sé flugvélum þá beint til Akureyrar eða Egilsstaða en á Egilsstöðum eru malbikunarframkvæmdir og á Akureyri er ekki pláss fyrir öllum einkaþotunum og því þurfa farþegaþotur að lenda í Skotlandi í neyðartilvikum. 

Stækka þurfi flugvelli úti á landi

„Menn hafa verið að tala um að það þurfi ekkert að fara í framkvæmdir á flugvöllum úti á landi, það held ég nú síður. Ef Akureyri og Egilsstaðir geta ekki tekið við farþegaþotum þá þarf að vera með aukaeldsneyti og það kostar nú skildinginn, ekki síst fyrir umhverfið.“

Þorvaldur vill að búið sé betur að flugvöllum úti á landi þannig að þeir séu í stakk búnir til að bregðast við ástandi eins og því sem nú verður við að una. 

„Margir hafa yppt öxlum yfir því að verið sé að stækka flugstöðina á Akureyri, það er bara svo við getum mögulega leyft flugvélum að lenda annars staðar á landinu en í Keflavík ef þess þarf, þannig vélar þurfi ekki að lenda í öðrum löndum.“

mbl.is