Heilbrigðismálin eru átakalínan

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef áhuga á fólki og vil hafa áhrif á hvernig samfélag okkar þróast,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, sem skipar efsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í alþingiskosningum 25. september. „Síðasta ártuginn eða svo hef ég notið þeirra forréttinda að vera í leiðandi hlutverki á vettvangi atvinnulífsins og samtaka þess. Unnið þar að mörgum mikilvægum málum með góðu fólki. Þegar því úthaldi lauk var oft nefnt við mig hvort bein afskipti af stjórnmálum kæmu ekki næst eins og varð niðurstaðan. Þátttaka mín í félagsmálum og reynsla af atvinnurekstri tel ég að geti nýst vel á Alþingi.“

Atvinnulífið er æðakerfi Íslands

Guðrún Hafsteinsdóttir telur framboðslistann sem hún fer fyrir vera vel skipaðan ólíku fólki sem hafi þó svipaðar lífsskoðanir.

„Við í hópnum náum vel saman, sem er uppskrift að árangri í haust,“ segir Guðrún sem fyrir prófkjörið og nú að undanförnu hefur farið víða um kjördæmið til að kynna sér viðhorf fólks og í hvaða málum öðrum fremur úrbóta sé þörf.

„Að starfsemi fyrirtækjanna í landinu gangi vel er í raun undirstaða þess að samfélag okkar geti haldið úti sterkum undirstöðum sem gera fólki kleift að njóta sín. Æðakerfi Íslands er atvinnulífið sem vegna veirunnar var á hægagangi síðasta vetur. Ég bjóst því við, þegar ég fór um kjördæmið fyrir prófkjör, að fólk vildi helst tala við mig um atvinnumálin en ekki heilbrigðisþjónustuna eins og var raunin. Heilbrigðismálin og áherslur þar eru í raun átakalína stjórnmálanna í dag,“ segir Guðrún.

Suður með sjó segir fólk heilbrigðisþjónustu og styrkingu hennar ekki hafa verið í takti við fjölgun íbúa á svæðinu um nærri 12.000 manns síðasta áratug. Þennan veruleika segir Guðrún oft berast í tal í samtölum við Suðurnesjafólk – og þarna sé klárlega þörf á úrbótum.

„Á Suðurnesjum þarf nýja heilsugæslustöð; slíkt getur ekki dregist stundinni lengur. Hjúkrunarými fyrir aldraða þurfa sömuleiðis að vera miklu fleiri í kjördæminu. Á stærstu þéttbýlisstöðunum þurfa að vera heilbrigðisstofnanir sem geta veitt alla algengustu þjónustu, sinnt fæðingum, bráðum veikindum og slysum. Um þetta er þung krafa á Suðurnesjum, í Eyjum, Hornafirði, Árborg og víðar. Sjálf er ég mjög oft á ferðinni hér milli Hveragerðis og Reykjavíkur og í þeim ferðum er algjör undantekning að ég mæti ekki sjúkrabílum sem eru í flutningum með sjúklinga í bæinn,“ segir Guðrún.

Gera kröfu um heilbrigðisráðuneytið

„Góðir skólar, greiðfærir vegir, að nauðsynjar fáist í verslunum, og öruggi í heilbrigðismálum. Þetta er grunnþjónusta. Við þurfum sömuleiðis að vera opin fyrir fleiru en opinberum rekstri í heilbrigðisþjónustu. Einkaframtakið hefur sína kosti en hvaða leið er valin snýst um pólitíska hugmyndafræði. Um margt hefur samstarf núverandi stjórnarflokka verið farsælt, árangursríkt og svarað óskum fólks um stöðugleika í stjórnarfari. Í sumum málum eru stjórnarflokkarnir þó alls ekki samstíga. Komist Sjálfstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn eigum við að gera kröfu um að stýra heilbrigðisráðuneytinu,“ segir Guðrún.

Á líðandi kjörtímabili var frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð eitt af stóru málunum, en náði ekki fram að ganga. Andstaða var mikil til dæmis innan Sjálfstæðisflokksins, sem Guðrún Hafsteinsdóttir segir ekki mega skilja sem andóf við náttúruvernd. „Með stofnun hálendisþjóðgarðs sem spanna skyldi um þriðjung landsins yrði tekið alltof stórt skref í einu – auk þess að skipulagsvald sveitarfélaga yrði skert. Einnig að gera nánast að engu sjálfboðið starf til dæmis bænda sem hafa verið góðir vörslumenn landsins og sinnt því frábærlega. Ríkið er ekki alltaf neitt sérstaklega góður eigandi lands eða húsa – og þá eigum við að veðja á einstaklinginn og framtak hans. Hálendisþjóðgarður getur verið ágæt hugmynd, en markmiðum í náttúruvernd sem voru undir í frumvarpinu má kannski ná með öðrum leiðum.“

Grunnþjónustan rúlli eðlilega

Að undanförnu hafa stundum heyrst þau sjónarmið að breyta þurfi kjördæmum landsins frá þeirri skipan sem gilt hefur síðastliðin 20 ár eða svo. Núverandi einingar séu oft stórar og feli í sér þá hættu að kjörnir fulltrúar hafi ekki yfirsýn eða tengsl við umbjóðendur sína.

Guðrún segir vert að gefa þessum sjónarmiðum gaum, en kveðst þó enn ekki hafa myndað sér skoðun á málinu.

„Hvað Suðurkjördæmi viðvíkur má færa fyrir því rök að fólk í Grindavík og á Hornafirði – Keflavík og Klaustri - eigi ekki margt sameiginlegt. En á einhvern máta þarf að útfæra þetta. Eftir ferðalög mín að undanförnu, heimsóknir á hvern einasta þéttbýlisstað og víða um sveitir í Suðurkjördæmi þá finnst mér þó mun fleira sameina íbúana og hagsmuni þeirra en hitt. Að atvinnulífið slái með eðlilegum púlsi og grunnþjónustan virki; stjórnmálamanna er að sjá til þess að þetta rúlli allt eðlilega og smurt, sama hver staðurinn er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert