Lítil sól í vikunni og von á úrkomu

Líklegt er að regnhlífar komi að notum í vikunni.
Líklegt er að regnhlífar komi að notum í vikunni. Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir úrkomu víðast hvar á landinu á morgun og verður ekki jafnhlýtt næstu daga og verið hefur undanfarna viku. Hitinn náði hvergi tuttugu stigum á landinu í dag, hlýjast mældist hitinn nítján stig í Ásbyrgi og á Húsavík. Þetta segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

„Það verður svona nokkuð hlýtt á landinu á næstu dögum, þó ekki eins hlýtt og verið hefur. Þá stefnir í að það verði skýjað, fremur sólarlítið og dálítil úrkoma í vikunni.“

Á morgun má gera ráð fyrir úrkomu í flestum landshlutum, en þó minnst fyrir austan. Veðurfræðingurinn segir þá veðrið koma til með að verða keimlíkt næstu daga.

Spurður hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins megi búast við sól á næstunni segir hann: „Nei, engin sól í spánni, ekki hér á höfuðborgarsvæðinu í það minnsta.“

Hann segir meiri vætu sjást í kortunum en ef marka megi spána muni hlýna aftur næstu helgi. Þó sé áfram útlit fyrir úrkomu á Suður- og Vesturlandi næstu helgi. „Það er þá aðallega Norður- og Austurlandið sem njóta sólar og hita næstu helgi.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is