„Við fáum bara eitt tækifæri“

Arinbjörn (t.v.) og Benedikt (t.h.) eru bræður og standa saman …
Arinbjörn (t.v.) og Benedikt (t.h.) eru bræður og standa saman að stofnun Ice Trust.

Bræður, sem báðir eru í doktorsnámi í gervigreind í Bretlandi, vinna nú að því að koma á fót sjálfseignarstofnun sem kaupir landsvæði í skyni náttúruverndar. Stofnunin, sem hefur fengið nafnið Ice Trust, mun byggja á fjármagni frá almenningi og mun fólk þannig geta keypt lítinn skika úr hverri jörð, þótt jarðirnar verði í eigu sjálfseignarstofnunarinnar. Markmiðið er að leyfa ósnortinni náttúru að vera.

Bræðurnir heita Arinbjörn og Benedikt og eru Kolbeinssynir. Þeir segja þema verkefnisins „náttúruvernd í þínu nafni“.

Persónuleg náttúruvernd

„Við viljum að fólk fái persónulega tengingu við þá náttúruvernd sem það tekur þátt í. Við þurfum að vernda þessi svæði fyrir komandi kynslóðir, við höfum tækifæri núna til þess að gera það á meðan það er enn svona mikið af ósnortinni náttúru á Íslandi, hún kemur aldrei aftur. Um leið og hún skemmist er hún bara farin. Við fáum bara eitt tækifæri,“ segir Arinbjörn um Ice Trust.

„Við viljum gera þetta með svolítið nýjum stíl þannig að þeir sem taka þátt í náttúruverndinni fá heiðurseign, skika sem þeir geta kallað sinn. Þeir geta ekki gert neitt við hann, skikinn verður í eigu þessarar sjálfseignarstofnunar sem verður stofnuð og mun eiga alla jörðina en það verður skrá yfir það hver er búinn að styrkja og hvaða skika viðkomandi á á jörðinni.“

Benedikt segir þá að fólkið sem styrkir Ice Trust geti valið sér skika, til dæmis hluta af fossi, læk eða strönd, og fái nákvæm hnit yfir staðsetningu þeirra skika sem það kaupir. „Það gerir þetta persónulegra.“

Hér má sjá á myndrænan hátt hvernig kaup skika eru …
Hér má sjá á myndrænan hátt hvernig kaup skika eru hugsuð.

Ætla að sækjast eftir friðlýsingum

Markmið Ice Trust er að kaupa litlar og meðalstórar jarðir sem þeim þykir mikilvægt að vernda og halda ósnortinni náttúru á. Þeir hyggjast ekki kaupa bújarðir eða sumarbústaðajarðir, fremur jarðir sem lélegt aðgengi er að og eru ekki nýttar til neins sem stendur.

„Það er enginn á markaðnum sem er að meta jarðir út frá náttúrunni og bjóða í þær út frá náttúrulegum verðmætum þannig að það er markmiðið að kaupa þær og sækjast svo eftir friðlýsingu á þeim öllum um leið og kostur er,“ segir Arinbjörn.

„Ice Trust verður sjálfseignarstofnun þannig að jörðin mun eiga sig sjálf í raun og veru. Svo verður Ice Trust með opinbera skrá sem heldur utan um það hver á hvaða skika. Svo höfum við líka verið að horfa til framtíðar, hvernig við getum aukið tenginguna, t.d. með því að birta reglulega myndir af jörðunum svo fólk geti fylgst með skikunum sínum,“ segir Benedikt.

Hann bætir því við að möguleiki verði á því að kaupa skika í gjafir og verði þeir til dæmis tilvalin skírnargjöf þar sem markmiðið sé að vernda ósnortna náttúru fyrir komandi kynslóðir. 

Eins og áður segir búa bræðurnir í Bretlandi. Þeir hafa ferðast mikið um Evrópu og átta sig alltaf á því þegar þeir koma til Íslands hve sérstakt það sé hve mikið sé af ósnortinni náttúru hér.

„Þó að það séu einhverjir þjóðgarðar úti í Evrópu þá er það ekki alveg á þessum skala. Þetta er ekki svona ósnortið. Það er alltaf einhver slóði eða byggingar, rafmagnsstaurar og svo framvegis,“ segir Benedikt.

Bræðurnir eru hrifnir af því hversu mikið er til af …
Bræðurnir eru hrifnir af því hversu mikið er til af ósnortinni náttúru hér á Íslandi.

Í krafti fjöldans

Þegar bræðurnir fóru að skoða hvað þeir gætu gert til þess að taka þátt í náttúruvernd á Íslandi fannst þeim vanta möguleikann á því að gera náttúruverndina persónulega.

„Eitthvað sem fólk getur styrkt með innan við 10.000 krónum og fengið eitthvað marktækt á móti, séð hvað það er virkilega að vernda,“ segir Arinbjörn. 

Eins og áður segir hyggjast bræðurnir kaupa litlar og meðalstórar jarðir í krafti hópfjármögnunar.

„Við viljum kaupa jarðir á stöðum sem eru sérstakir og er ekki búið að byggja neitt upp á,“ segir Benedikt.

Þá skiptir ekki máli að það sé gott aðgengi að jörðunum.

„Jarðir sem er lélegt aðgengi að og erfitt er að vera með landbúnað á eru ekkert ofboðslega dýrar en við sjáum samt mikið virði í ósnortinni náttúru og við viljum passa það að hún sé vernduð og friðlýst,“ segir Arinbjörn.

Bræðurnir vilja með Ice Trust gefa fólki tækifæri á persónulegri …
Bræðurnir vilja með Ice Trust gefa fólki tækifæri á persónulegri náttúruvernd.

Vilja leyfa svæðunum að vera

Eins og áður segir sjá bræðurnir fyrir sér að sækjast eftir friðlýsingum á þeim svæðum sem Ice Trust kaupir.

„Við erum að horfa til framtíðar vegna þess að vonandi mun Ice Trust lifa lengur en við. Við verðum að passa það að það sé allt verndað og það sé ekki afturkræft, svo sá sem stjórnar í framtíðinni geti ekki farið að breyta jörðunum og byggja eitthvað á þeim,“ segir Arinbjörn.

Markmiðið er að gera ekki neitt við jarðirnar í raun og veru.

„Við viljum leyfa þessum svæðum að vera nákvæmlega eins og þau eru,“ segir Benedikt. 

 „Svo munum við líka vinna með þessum aðilum og stofnunum sem eru að hugsa um náttúruvernd eins og Landvernd og sjá hvað er hægt að gera til þess að viðhalda þessu. Markmiðið er að halda þessu ósnortnu,“ segir Arinbjörn.

Er þetta ekki eitthvað sem ætti frekar að falla undir hlutverk ríkisins?

„Jú, og ríkið er að gera þetta, en á allt öðrum skala, til dæmis í þjóðgörðunum. En það er talsvert um litlar jarðir sem myndi ekki endilega passa að setja heilan þjóðgarð í kringum en væri gott að vernda og geyma. Svo er líka öruggara að hafa ekki öll eggin í sömu körfu. Maður veit aldrei hvaða ákvarðanir stjórnvöld munu taka í framtíðinni. Það þarf bara að klúðra þessu einu sinni og þá komumst við aldrei til baka,“ segir Benedikt.

Ekki í hagnaðarskyni

Þarf ekki mikinn fjölda til þess að styðja við verkefnið svo þetta gangi upp?

„Þetta eru misstórar jarðir sem við erum að pæla í. Til að byrja með horfum við á eitthvað í minni kantinum og jarðir með lélegu aðgengi eru almennt ekki mjög dýrar,“ segir Benedikt.

Arinbjörn ítrekar að verkefnið sé ekki unnið í hagnaðarskyni. „Allur hagnaður mun fara í það að kaupa næstu jörð og vernda núverandi jarðir.“

Bræðurnir sjá fyrir sér að mögulegt verði fyrir þá að nýta þekkingu sína á gervigreind til þess að gera verkefnið enn meira spennandi í framtíðinni. Til dæmis með því að skila fólki loftmyndum af skikum þess og leyfa fólki að fylgjast með náttúrulegum breytingum sem verða á landinu yfir árin.

Nú safna þeir fyrir stofnun sjálfseignarstofnunarinnar Ice Trust á Karolina Fund. Þar geta lesendur lagt þeim lið og freistað þess að eignast skika af ósnortinni náttúru.

mbl.is