„Allar væntingar stóðust og mun meira en það“

Annie Mist Þórisdóttir á Heimsleikunum í Crossfit 2021.
Annie Mist Þórisdóttir á Heimsleikunum í Crossfit 2021. Ljósmynd/Aðsend

Annie Mist Þórisdóttir hlaut í gær bronsverðlaun á heimsleikunum í crossfit. Hún segist ótrúlega ánægð með árangurinn en henni þótti ekki raunhæft að gera sér vonir um að hún gæti náð svo langt eftir erfitt ár. Þá hafi markmiðið með þátttökunni verið að ná stjórn á líkama og huga og sjá hvar hún stæði.

„Ég er enn að átta mig á hlutunum en ég er bara ótrúlega ánægð og hlakka til að koma heim og fagna með fjölskyldunni,“ segir Annie um árangurinn í samtali við mbl.is.  

Annie segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að vera með ákveðnar væntingar til leikanna, hún hafi farið fram og til baka með það síðustu mánuði hvort hún væri tilbúin í að keppa. Markmiðið hafi þó verið að komast í topp tíu, ef hún yrði með, sem tókst svo sannarlega. „Þannig að allar væntingar stóðust og mun meira en það,“ segir Annie.  

Annie Mist Þórisdóttir.
Annie Mist Þórisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hafði litla trú á því að hún næði á pall

Annie segist alls ekki hafa búist við því að hún næði eins langt og raun bar vitni. „Meira að segja þegar ég var að fara inn í síðasta daginn þorði ég ekki að trúa því að ég gæti endað á palli. Þetta var einhvern veginn svo fjarlægt í huganum á mér áður en ég byrjaði að keppa,“ segir Annie.  

Þá segist Annie vera mikil keppnismanneskja og að hana langi alltaf til að keppa um fyrsta sætið eða pallinn en henni fannst þó óraunhæft að fara með slíkar væntingar inn í leikana í ár með þann undirbúning sem hún hefur fengið og allt sem hún hefur gengið í gegnum síðastliðið ár, en Annie eignaðist dóttur fyrir tæpu ári.   

Annie Mist.
Annie Mist. Ljósmynd/Aðsend.

„Mér fannst ekki réttlátt af sjálfri mér að vonast eftir sæti á palli,“ segir Annie og bætir við: 

„Fyrst þegar ég byrjaði að æfa aftur bjóst ég ekki einu sinni við því að ég gæti keppt á leikunum. Tveimur mánuðum fyrir leik var ég enn ekki búin að taka fulla ákvörðun og í flugvélinni á leiðinni yfir til Bandaríkjanna sagði ég meira að segja við manninn minn að ef ég vildi ekki keppa þá væri ég ekki að fara að keppa, ég gæti ennþá hætt við.“ 

Erfitt að toppa fyrri sigra

Annie hefur í tvígang unnið leikana en segir þó að bronsið í ár sé ein af toppstundunum á sínum ferli en þó sé erfitt að toppa það þegar hún vann leikana í bæði skiptin.  

„Þetta er svona aðeins öðruvísi sigur því maður er að fara inn í þetta með miklu minni væntingar en fyrri ár,“ segir Annie og bætir við:  

„Ég er búin að leggja alveg ótrúlega mikið á mig núna í ár og búin að þurfa að ganga í gegnum ansi mikið á leiðinni til baka aftur og þess vegna er þetta alveg virkilega stór sigur fyrir mig.“ 

Ljósmynd/Aðsend

Þá segir Annie að sig hafi langað að gera allt til að ná stjórn á líkamanum aftur eftir barnsburð. „Þetta var eitthvað svo fjarlægt hjá mér í byrjun en þegar ég fór að hugsa um þetta sem meiðsli þá var þetta allt annað því ég kann að vinna mig í gegnum meiðsli.  

Ég er búin að vera með frábæran stuðning í kringum mig í gegnum þetta allt saman og hef fengið mikla aðstoð. Það var erfitt að fá ekki að vera með fjölskylduna með mér úti eins og venjulega og allt annað að tala i gegnum FaceTime við dóttur mína, en ég var með Frederik, þjálfarann minn Jami og æfingafélagann Björgvin Karl með mér úti. Síðan er Katrín búin að vera alger steinn fram að og í gegnum „Games“. Það er ómetanlegt að vera með svona fólk i kringum sig,“ segir Annie.

Annie Mist og Frederik Aegidius.
Annie Mist og Frederik Aegidius. Ljósmynd/Aðsend

Þátttakan vonandi hvatning fyrir aðrar mæður

Þá vonaðist Annie til þess að þátttaka hennar í leikunum yrði hvatning fyrir hana og aðrar mæður og að með þátttöku gæti hún vonandi hjálpað öðrum sem eiga að baki svipaða reynslu og hún.

„Við getum þetta aftur, sama hvernig fæðingin okkar er eða hvernig okkur gengur eftir hana og sama hversu langan tíma það gæti tekið. Með því að leggja inn vinnuna sem við þurfum að leggja inn þá munum við jafna okkur og við munum ná stjórn á líkamanum. Þetta á ekki að þurfa að stoppa drauma okkar,“ segir Annie.  

Annie Mist og Katrín Tanja.
Annie Mist og Katrín Tanja. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert