Fimmtíu í rútu sem valt í Biskupstungum

Rúta Arctic Rafting. Fimmtíu voru um borð þegar rútan valt …
Rúta Arctic Rafting. Fimmtíu voru um borð þegar rútan valt á hliðina. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir

Rútuslys varð í Biskupstungunum í kvöld. Fimmtíu manns voru í rútunni sem var á leið úr flúðasiglingu.

Slys á fólki eru minniháttar og er ástandið betra en það leit út fyrir í fyrstu. Einhverjir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur og verður þeim komið undir læknishendur.

Þetta segir upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá. 

Þar segir að rútan sé á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Rafting, sem gerir út flúðasiglingar. 

Rútan var með þar til gerða báta í eftirdragi þegar hún valt. 

Varðstjóri Landhelgisgæslunnar staðfesti áðan að þyrla gæslunnar hefði farið í útkall en gat að svo stöddu ekki tjáð sig frekar um málið. 

Aðgerðum björgunarsveita á svæðinu er í það minnsta lokið, en lögregla sér nú um vettvang slyssins og væntanlega rannsókn þess. 

Ekki hefur verið ákveðið hvort einhvers konar fjöldahjálparmiðstöð verði virkjuð. 

mbl.is