Fólk var meira en gott við okkur

Niko og Hannah hjóluðu hringinn og sögðu ferðina hafa breytt …
Niko og Hannah hjóluðu hringinn og sögðu ferðina hafa breytt sér. mbl.is/Ásdís

Á síðasta degi Íslandsferðar parsins Hönnuh og Nikos fór blaðamaður til fundar við þau á kaffihúsi í miðborginni. Þau höfðu þá klárað að hjóla hringinn um landið, með ýmsum útúrdúrum upp á hálendið, á tveimur mánuðum. Hin þýska Hannah hefur aðallega orð fyrir þeim, en Niko, sem er frá Georgíu, er ekki nógu sleipur í ensku og blaðamaður ansi ryðgaður í þýskunni. Parið, sem býr í Berlín, ákvað að skella sér yfir hafið með tjald og hjól í farteskinu.

Virðing fyrir náttúrunni

Eftir sóttkví lögðu þau af stað hjólandi hringinn og fóru norðurleiðina. Ferðin byrjaði með skelli, svo að segja, en þau lögðu af stað einn vindasamasta dag sumarsins. Þann dag fuku margir húsbílar og vagnar á hliðina og líklega fleiri en sagt var frá í fréttum!

Parið gisti í tjaldi í tvo mánuði víðs vegar um …
Parið gisti í tjaldi í tvo mánuði víðs vegar um land.

„Það var eins og Ísland væri strax í upphafi að reyna að kenna okkur að bera virðingu fyrir landinu og náttúrunni. Við vorum varla komin út fyrir höfuðborgina þegar við lentum í svo miklum vindhviðum að við þurftum að leggja hjólunum í brekku og leita skjóls. Við fundum stað þar sem húsbílar voru greinilega til sölu, en þeir stóðu þarna á bílaplani. Við leituðum skjóls á milli þeirra og þegar við ætluðum síðan að athuga með hjólin okkar kom vindhviða og feykti einum húsbílnum yfir á hinn enda plansins. Við vorum heppin að verða ekki fyrir, en við hlupum í burtu. Þegar við komum aftur sáum við að tveir aðrir húsbílar höfðu fokið niður brekkuna og við héldum fyrst að þeir hefðu lent á hjólunum okkar. Við fundum ekki hjólin, en þá hafði fólk þarna borið hjólin okkar upp og hringt í lögguna, af ótta við að við lægjum slösuð undir húsbílunum. Þetta var fyrsti dagurinn okkar!“ segir hún.

„Þetta kennir manni að við erum ekki stærri en náttúran. Eins og með öll flóðin í Þýskalandi; það hefur kennt manni að við stjórnum ekki náttúrunni.“

Brosin eru frá hjartanu

Veðrið skánaði sem betur fer og parið gat haldið áfram ferð sinni. Á leiðinni hittu þau margt fólk, bæði Íslendinga og útlendinga.

„Mikilvægast fannst okkur að hitta Íslendinga. Við fundum fyrir gestrisni og örlæti sem fór fram úr okkar björtustu vonum. Um daginn vorum við á tjaldstæði og þurftum að taka rútu, en rútan keyrði fram hjá og öll okkar plön fóru út um þúfur. Við vorum mjög leið, en þarna var íslensk kona sem var svo góð við okkur. Hún hjálpaði okkur og við þurftum ekki að borga nóttina. Við vorum ekki með mat því þarna var engin búð, en hún kom með mat handa okkur. Daginn eftir kom hún til okkar með kampavín og súkkulaði. Fólk var ekki bara gott við okkur; það var meira en gott! Þetta er bara nýjasta dæmið en við lentum í mörgu svipuðu á leiðinni,“ segir Hannah og segir áberandi hversu einlægir Íslendingar eru.

Hálendið var í uppáhaldi hjá parinu en þau gengu mikið, …
Hálendið var í uppáhaldi hjá parinu en þau gengu mikið, bæði í Skaftafelli og Landmannalaugum.

„Ég er alin upp að hluta í Bandaríkjunum og þar eru allir brosandi alltaf en hér eru engin gervibros. Ef einhver brosir hér er það frá hjartanu. Þessi skapgerð ykkar passar vel við Niko, hann er alvarlegri en ég, en ég er brosmildari eins og Bandaríkjamenn,“ segir hún og brosir.

Eins og klyfjaðir asnar

„Þetta er í fyrsta sinn sem við komum til Íslands. Við hjóluðum að mestu allan tímann en einstaka sinnum tókum við rútu, ef við þurftum að komast í gegnum göng til dæmis,“ segir Hannah.

„Við fórum mjög hægt yfir,“ segir Niko og Hannah segir þau ekkert hafa verið að flýta sér.
„Við erum ekki alveg eins og margt annað hjólafólk sem pakkar mjög létt á hjólin sín. Við erum meira eins og klyfjaðir asnar,“ segir Hannah og hlær.

Allt sem þau þurftu til þess að ferðast um landið …
Allt sem þau þurftu til þess að ferðast um landið var borið á hjólunum. mbl.is/Ásdís

„Við erum með skákborð og dagbækur með í för og okkur finnst best að stoppa lengi á hverjum stað. Við hjóluðum eitthvað daglega en vildum líka hafa tíma til að hugleiða, stunda jóga, lesa, ganga og kjafta saman,“ segir Hannah og segir að því fylgi mikil frelsistilfinning að ferðast um með allt sem maður þarf.

Parið lærði margt á leiðinni, meðal annars að bera virðingu …
Parið lærði margt á leiðinni, meðal annars að bera virðingu fyrir náttúrunni.

„Ferðin var ekki aðeins hugsuð sem ferðalag heldur var þetta einnig innri vegferð. Það er í raun mikilvægara en hversu marga kílómetra við lögðum að baki.“

Hvað lærðuð þið á þessari vegferð?

„Það er erfitt að setja það í orð. Við byrjuðum í Reykjavík í júníbyrjun og nú erum við komin aftur hingað. Þetta er sama borgin með sama fólkinu og því er borgin kunnugleg, en samt svo öðruvísi en áður. Þegar ég hugsa um manneskjuna sem ég var þá, þá þekki ég hana varla. Ég held að staðir eða athafnir geti breytt manni og á leiðinni prófuðum við nýjar aðferðir við hugleiðslu. Ég myndi kalla þetta umbreytingu frekar en lærdóm. Ég finn stóran mun á mér til hins betra,“ segir hún og Niko tekur undir það.

„Landslaginu hér fylgir einmanaleikatilfinning sem ég hef aldrei fundið fyrir áður. Hér er svo mikið víðerni og hægt að sjá svo langt og svo fámennt. Það breytir manni,“ segir Hannah.

Að hjóla eftir hringveginum gat oft verið erfitt, enda völdu …
Að hjóla eftir hringveginum gat oft verið erfitt, enda völdu þau Hannah og Niko oft aðra vegi.

Nánar má lesa um hjólaferð Nikos og Hönnuh í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »