Horfurnar góðar fyrir atvinnulíf og samfélag

Í könnun Landshlutasamtaka sveitarfélaga reyndust Vestmannaeyingar ánægðastir.
Í könnun Landshlutasamtaka sveitarfélaga reyndust Vestmannaeyingar ánægðastir. mbl.is/Sigurður Bogi

Vestmannaeyingar eru brattir og framtíð bæjarfélagsins virðist björt. Sem dæmi um þróunina á svæðinu nefnir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri uppbyggingu nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi á þriðju hæð Fiskiðjunnar, en sá „kostur“ fylgdi kórónuveirufaraldrinum að fleiri möguleikar opnuðust fyrir fjarvinnu og þar með tækifæri fyrir fólk í sérhæfðum störfum til að setjast að í Vestmannaeyjum en vinna hjá fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Veruleg uppbygging hefur líka verið í ferðaþjónustugeira bæjarins enda Vestmannaeyjar spennandi staður til að heimsækja. „Þá fengum við stóran styrk úr Lóu-sjóðnum sem er eyrnamerktur nýsköpun á landsbyggðinni og verður fjármagnið nýtt til að setja á laggirnar Sjávarlíftæknisetur Íslands í Vestmannaeyjum,“ segir Íris. „Einnig eru áform um landeldi á fiski vel á veg komin og góðar horfur í atvinnusköpun, og loks fengum við smá loðnuvertíð eftir tveggja ára loðnubrest sem var ágætisinnspýting í hagkerfi Vestmannaeyja.“

Ánægðastir allra

Að sögn Írisar er eftir sem áður mikill kraftur og jákvæðni í samfélaginu, uppbygging íbúðarhúsnæðis gengur vel og margir sem hafa komið auga á kosti þess að flytja með fjölskyldur sínar til Vestmannaeyja. „Nýleg könnun sem gerð var á vegum Landshlutasamtaka sveitarfélaga leiddi í ljós að Vestmannaeyingar eru ánægðastir allra með búsetuskilyrði sín og sérstaklega ánægðir með þá þjónustu sem þeim stendur til boða. Samfélagið er mjög fjölskylduvænt með leik-, grunn- og framhaldsskóla og gott aðgengi að háskólanámi. Íþróttastarfið er líka fjölbreytt og við erum stolt af góðri þjónustu við fatlaða. Þjónustustigið er hátt og mikil fjölbreytni í afþreyingu. Loks má ekki gleyma þeim lífsgæðum sem fylgja því að þurfa ekki að vera í umferðinni í klukkutíma á dag eða meira heldur geta farið allra sinna ferða á nokkrum mínútum.“

Bíða eftir sjúkraþyrlu

Eitt af baráttumálum Vestmannaeyinga er að sjúkraþyrla verði til taks á Suðurlandi og helst staðsett í Eyjum. Íris segir að vöntun á skurðstofuvakt geri það brýnt að geta komið Eyjamönnum hratt á spítala í Reykjavík ef þess þarf. „Aukinn straumur ferðamanna um Suðurland skapar líka þörf fyrir þessa þjónustu og myndi stytta viðbragðstíma mikið að hafa sjúkraþyrlu á svæðinu.“

Sjúkraþyrlan er vonandi á leiðinni en til stóð að ráðast í tilraunaverkefni. „En kórónuveirufaraldurinn setti þau plön í uppnám og við bíðum núna átekta,“ segir Íris.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert