Fluttur til Akureyrar eftir árás ísbjarnar

Ísbirnir eru sjaldséðir á Íslandi.
Ísbirnir eru sjaldséðir á Íslandi. AFP

Aðfaranótt mánudags fengu þrír kvikmyndagerðarmenn óboðinn gest í heimsókn til sín í rannsóknarkofa sem tilheyrir Háskólanum í Árósum sem er í 400 metra fjarlægð frá Daneborg-stöðinni í austurhluta Grænlands. Um nóttina vaknaði einn þeirra við að ísbjörn hafði komist inn í gegnum glugga á herbergi þeirra.

Ísbjörninn réðst á manninn og beit fast í vinstri hönd hans. Hinir tveir vöknuðu við öskrin í samstarfsfélaga sínum og í sameiningu náðu þeir að láta ísbjörninn sleppa takinu á hönd mannsins og fældu hann í burtu með blysbyssu.

Fluttur til Akureyrar

Kvikmyndagerðarmennirnir höfðu samband við dönsku hersveitina Síríus, sem er með herstöð í Daneborg, eftir árásina. Tveir hermenn úr sveitinni komu að rannsóknarkofanum og skoðuðu þann slasaða. Þeir ákváðu að flytja hann á læknastofu í Daneborg til aðhlynningar. Enginn læknir var á staðnum og sáu tveir hermenn um að gera að sárum mannsins, sem er danskur, í samráði við lækni í Danmörku.

Þeir töldu hins vegar að maðurinn þyrfti á ítarlegri læknisskoðun að halda og var hann fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar, þar sem maðurinn fór á bráðamóttökuna á sjúkrahúsinu á Akureyri. Maðurinn var ekki lagður inn en gert var að sárum hans og fór hann aftur til Grænlands að því loknu.

„Vandræðaísbjörn“

Þegar hersveitarmennirnir frá Síríus skoðuðu kofann betur aðfaranótt mánudags eftir árásina, sáu þeir að ísbjörninn hafði reynt komast í gegnum fleiri glugga, án árangurs, en mörg fótspor eftir ísbjörn voru fyrir utan gluggana. 

Í gærmorgun tilkynntu kvikmyndagerðarmennirnir, sem enn voru í kofanum, í samtali við Síríus, að björninn hefði snúið aftur. Hermennirnir brugðust skjótt við og náðu að fæla ísbjörninn áður en hann komst aftur að rannsóknarkofanum.

Klukkan tvö í nótt lét björninn enn og aftur á sér kræla. Hann eyðilagði glugga en í þetta sinn náðu kvikmyndagerðarmennirnir að fæla björninn í burtu. Yfirvöld í Grænlandi hafa skilgreint  björninn sem „vandræðabjörn“ sem gerir hann réttdræpan ef hann heldur áfram að ónáða fólk. Ísbjörninn hefur fimm sinnum áður verið til vandræða.

mbl.is