Hinsegin dagar í skugga heimsfaraldurs

Það er orðin hefð að mála regnboga í Reykjavík á …
Það er orðin hefð að mála regnboga í Reykjavík á Hinsegin dögum en málningarvinnan markar upphaf hátíðarinnar. Ljósmynd/Unnur Karen

Hinsegin dagar voru formlega settir í hádeginu í dag þegar málaður var regnbogi á Ingólfsstræti, milli Hverfisgötu og Laugavegs. Til stóð að halda hátíðina með hefðbundnu sniði í ár en vegna heimsfaraldursins var það ekki hægt. Fjölbreytt dagskrá verður þó í boði á hátíðinni þrátt fyrir samkomutakmarkanir, að sögn Ásgeirs Magnússonar, formanns hátíðarinnar.

Það er ýmislegt hægt þó við búum við takmarkanir. Við getum komið saman og verið sýnileg á öruggan og ábyrgan hátt. Ég er ánægður með hve marga viðburði teyminu tókst að skipuleggja þrátt fyrir allt. Hér erum við fljót að sníða okkur pallíettustakk eftir vexti,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Ásgeir Magnússon formaður hinsegindaga.
Ásgeir Magnússon formaður hinsegindaga. Ljósmynd/hinsegindagar.is.

Opnunarhátíð í beinu streymi

Hátíðin stendur til 8. ágúst en miðasala á viðburði hátíðarinnar fer fram á hinsegindagar.is

Skipuleggjendur hátíðarinnar vilja bæta aðgengi að hátíðinni og því verða nokkrir viðburðir hennar í beinu streymi á Facebook-síðu Hinsegin daga, að sögn Ásgeirs.

„Við erum að taka okkur á í aðgengismálum. Við skrifuðum undir samstarfssamning við Evrópusambandið á dögunum og það er að styrkja okkur sérstaklega til að bæta aðgengismál á hátíðinni, hvort sem það er með römpum fyrir bætt hjólastólaaðgengi eða með því að hafa táknmálstúlka á viðburðum hátíðarinnar. Í ár verður streymt frá opnunarhátíðinni og öllum fræðsluviðburðunum og við verðum líka með táknmálstúlk í öllu streymi.“

Það er orðin hefð að mála regnboga í Reykjavík á …
Það er orðin hefð að mála regnboga í Reykjavík á Hinsegin dögum og málningarvinnan markar upphaf hátíðarinnar. Ljósmynd/Unnur Karen

Opn­un­ar­hátíð Hinseg­in daga fer fram í Gamla bíó í kvöld þar sem úr­val hinseg­in lista­manna mun koma fram. Á viðburðinum verður hólfaskipting, grímuskylda og sætaskipan.

„Okkar besta band, Úkúlellurnar, mun syngja og spila frumsamin lög á úkúlele, en þær eru þrettán talsins. Bjarni Snæbjörnsson leikari sýnir brot úr leikritinu sínu Góðan daginn Faggi, Kíta syngur tvö lög og dragdrottningin Faye Knús tryllir mannskapinn. Að lokum mun Bassi Maraj skila okkur hressum út í kvöldið með lagi Hinsegin daga,“ segir Ásgeir.

Bassi Maraj mun troða upp á opnunarhátíð Hinsegin daga.
Bassi Maraj mun troða upp á opnunarhátíð Hinsegin daga. Skjáskot/Instagram

Hinsegin á öllum aldri

Fjöldi annarra viðburða verður í boði á hátíðinni en má þar helst nefna fjarfund með Aron-Winst­on Le Fevre, mann­rétt­inda­full­trúa Copen­hagen Pri­de 2021, um ástandið í Evr­ópu, fræðslu sem kall­ast Hinseg­in 101 fyr­ir hinseg­in fólk, dragkvöld, dragbröns, götuleikhús og ungmennatónleika.

Þá verða nokkrir viðburðir helgaðir þema hátíðarinnar sem er að þessu sinni Hinsegin á öllum aldri.

„Einn þeirra er Samtal kynslóða, sem fer fram í Máli og menningu kl. 17 í dag. Þar munu þrír einstaklingar á ólíkum aldri tala um reynslu sína af því að vera 20 ára, hinsegin einstaklingur á Íslandi.

Svo er viðburður á morgun sem heitir Að eldast hinsegin þar sem við erum að skoða hvernig það er að eldast hinsegin hér á landi og skoða í því samhengi heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili. Hvort fólk geti haldið áfram að vera „out and proud“ eftir að inn á dvalarheimili er komið eða hvort það sé satt sem maður heyrir að sumir einstaklingar séu að hrökklast aftur inn í skápinn þegar þangað er komið,“ segir Ásgeir að endingu.

mbl.is