Horfa verði til veikinda en ekki smitfjölda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Horfa þarf til fjölda þeirra sem veikjast alvarlega af kórónuveirunni, en ekki til fjölda smita, þegar staða faraldursins er metin hér á landi. Bólusetning hefur ekki veitt hjarðónæmi en þó varið Íslendinga fyrir alvarlegum veikindum.

Til skoðunar er að bólusetja viðkvæma hópa og fólk með undirliggjandi sjúkdóma með örvunarskammti bóluefnis Pfizer. Það yrðu þá þeir sem nú þegar hafa fengið tvo Pfizer-skammta. 

Markmið ríkisstjórnarinnar er að raska ekki skólastarfi á komandi vetri og því má gera ráð fyrir að skólastarf fari fram með eðlilegum hætti. Þeim kennurum sem áður höfðu fengið bóluefni Janssen hefur verið boðinn örvunarskammtur og hófst sú bólusetning í dag. 

Bólusetning barna er þá í sjónmáli, yfirvöld reyna nú að koma sér saman um með hvaða hætti það skuli gert, ef í það fer á annað borð. 

Þetta og fleira sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Bólusetning komið í veg fyrir alvarleg veikindi

Svandís segir að stjórnvöld séu nú í miðju því ferli, að skoða hvað skuli taka til bragðs næst í baráttunni við faraldurinn. Því getur hún ekkert spáð fyrir um takmarkanir eða afléttingar að svo stöddu. Þær takmarkanir sem nú eru í gildi voru settar á til þess að koma í veg fyrir smit á stórum mannamótum. 

„Við sjáum að bólusetningarnar eru að hafa mjög mikil áhrif á veikindin sem slík en því miður ekki að tryggja eða í koma í veg fyrir útbreiðsluna, þannig við erum að sjá aðra stöðu varðandi hjarðónæmi en við gerðum ráð fyrir. En, við erum að ná umtalsverðum árangri með bólusetningum í að verja fólk gegn alvarlegum veikindum,“ segir hún. 

„Við erum í miðju því ferli að meta stöðuna og þess vegna settum við á þessar óverulegu takmarkanir, sem hafa þá áhrif á þessar stærstu samkomur, til að aðeins ná utan um stöðuna og settum aftur á fjarlægðarreglu og grímuskyldu og þess háttar. Við þurfum að ná í frekari gögn til að byggja okkar ákvarðanir á skýrari grunni og til þess að sjá með eins bestum hætti hvernig næsti vetur verður.“

Viðkvæmir hópar fái örvunarskammt

Svandís segir einnig til skoðunar sé að gefa þeim, sem tilheyra viðkvæmum hópum og hafa nú þegar fengið tvo skammta af bóluefni Pfizer, fái örvunarskammt í formi þriðju Pfizer-sprautunnar. 

„Það hefur verið til skoðunar að byrja að bjóða þeim sem tilheyra viðkvæmum hópum og eru með undirliggjandi sjúkdóma að þriðju bólusetningu, það eru þá þeir sem hafa fengið tvær sprautur af Pfizer,“ segir Svandís. 

Skólamálin

Um komandi vetur segir Svandís að markmið ríkisstjórnarinnar sé að raska ekki skólastarfi. Hún segir að það sé vilji yfirvalda að daglegt amstur skólabarna sé sem reglubundnast. 

Bólusetningar barna eru í kortunum, en kennurum landsins er nú boðinn örvunarskammtur, þá þeim sem upphaflega fengu bóluefni Janssen. 

Svandís segir einnig að til standi að bjóða örvunarskammt öllum þeim sem fengu bóluefni Janssen, sem að stórum hluta voru yngstu aldurshóparnir.

„Verkefni dagsins og næstu daga eru örvunarskammtar fyrir þá sem hafa fengið bóluefni Janssen. Þar byrjum við á kennurunum og þau hafa verið að fá örvunarskammt núna í dag og munu fá næstu vikuna. Ég held að það sé eitthvað um 50 þúsund manns sem fengu Janssen allt í allt og það verður þá unnið í þeim hópi í framhaldinu. Það er fyrst á dagskrá.

Síðan er til skoðunar hvenær við færum í að bjóða foreldrum barna á aldrinum 12-15 ára að koma með sín börn í bólusetningu. Það er auðvitað svolítið öðruvísi hópur en við höfum verið að bólusetja hingað til af því það er auðvitað foreldrunum sem er boðið upp á bólusetningu fyrir sín börn.“

Um komandi skólavetur segir Svandís:

„Okkar markmið er auðvitað fyrst og fremst það að skólastarf haldist og raskist ekki og þannig að daglegt amstur skólabarna, alveg sama á hvaða aldri þau eru, sé sem reglubundnast. Og eins og sakir standa eru engar takmarkanir á skólastarfi í reglugerðum og því tel ég að það sé fullt tilefni til þess að allir undirbúi sig undir eðlilegt skólaár, sama á hvaða skólastigi það er.“

Skólar hefjast brátt.
Skólar hefjast brátt. mbl.is/Styrmir Kári

Uppbygging Landspítalans verður að halda áfram

Staðan á Landspítalanum er sögð krítísk. Hættuástand er í gildi á stofnuninni og starfsfólk spítalans kvartar undan mönnunarvanda og plássleysi. Svandís segir að ástandið sé áhyggjuefni og við því verði að bregðast.

Hún segir að nú þegar hafi mikið verið gert á kjörtímabilinu í formi aukinna fjárveitinga en að stærsta umbótin sé nýr meðferðarkjarni við Hringbraut.

„Það sem er til bragðs að taka er að halda áfram að byggja spítalann upp, bæði með nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut og líka með því að auka við fjármögnun spítalans og það höfum við verið að gera á þessu kjörtímabili, um 14% á föstu verðlagi og það er umtalsverð innspýting í rekstrargrunn spítalans.“

„Fyrst og fremst hefur spítalinn sýnt hvað í honum býr, með því að stofna göngudeild sem ekki var áður til.“

Nýr meðferðarkjarni við Hringbraut er flóknasta byggingarframkvæmd sem ráðist hefur …
Nýr meðferðarkjarni við Hringbraut er flóknasta byggingarframkvæmd sem ráðist hefur verið í hér á landi. mbl.is/Hallur Már
mbl.is