Opnun nýs rýmis ráðist af fjölda innlagna

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir ekki hægt að spá fyrir um það núna hvort eða hvenær opna þurfi nýja deild undir Covid-sjúklinga á spítalanum.

Innlagnir undanfarna daga hafi verið að meðaltali tvær til þrjár á dag og smitsjúkdómadeildin, sem lögð hefur verið undir Covid-sjúklinga, sé með fimmtán til sautján rúm. 

„Ef við höldum áfram með sama innlagnahraða og útskriftahraða þá gæti komið að því á næstu dögum að við þyrftum að opna nýja deild. Eins og málin standa í dag er fyrirhugað að útskrifa fjóra, en núna klukkan þrjú var ákveðið að taka fjóra inn, en að vísu kemur einn þeirra af gjörgæsludeildinni. Þá eigum við að hámarki þrjú pláss til viðbótar úr að moða,“ segir hann. Því þurfi að gera næstu deild viðvart um að það gæti þurft að nota rými þar undir Covid-sjúklinga.

„Ég get í rauninni ekki sagt á þessari stundu hvort að við munum opna nýja deild á morgun eða hinn, það ræðst bara svolítið af taktinum í innlögnunum,“ segir Már.

Ljósmynd/Landspítalinn

Mönnun deildarinnar í jafnvægi

Spurður um hvaða rými yrði notað ef til þess kæmi segir hann að það yrði hæðin fyrir neðan smitsjúkdómadeildina þar sem lungnadeildin er staðsett, en smitsjúkdómadeildin er á sjöundu hæð í austurálmu spítalans í Fossvogi.

Þá segir hann mönnun smitsjúkdómadeildarinnar vera í jafnvægi. „Fólk hefur verið kallað til úr sumarleyfum og við erum að reyna að láta það duga. Svo með hverri vikunni sem líður þá fjölgar fólki til baka úr sumarleyfum þannig að eins og stendur þá gengur þetta alveg þokkalega.“

30 merktir gulir og einn rauður

Á hádegi í dag lágu sextán sjúklingar inni á Landspítala vegna Covid-19, þar af fjórtán á legudeildum og tveir á gjörgæslu. Annar þeirra er í öndunarvél.

Alls eru 1.293 með virk smit og því í eftirliti á Covid-göngudeild. Einn er merktur rauður samkvæmt litakóðunarkerfi göngudeildarinnar, það er með mikil einkenni, og 30 einstaklingar merktir gulir, það er með miðlungseinkenni. Aðrir eru merktir grænir, það er með engin eða væg einkenni.

Ljósmynd Landspítalinn
mbl.is